Fágætt afrek hjá LeBron og Ball

LeBron James og Lonzo Ball fagna sigri.
LeBron James og Lonzo Ball fagna sigri. AFP

LeBron James fór fyrir sínum mönnum í LA Lakers í nótt þegar þeir unnu góðan útisigur á Charlotte Hornets, 128:100, í NBA-deildinni í körfuknattleik.

James og hinn ungi samherji hans Lonzo Ball náðu báðir þrefaldri tvennu í leiknum. James skoraði 24 stig, tók 12 fráköst og átti 11 stoðsendingar en Ball skoraði 16 stig, tók 10 fráköst og átti 10 stoðsendingar.

Þetta er í fyrsta sinn í ellefu ár sem samherjar ná þrefaldri tvennu í leik í deildinni en síðast voru það Jason Kidd og Vince Carter fyrir New Jersey Nets í apríl 2007. Næstir á undan þeim voru það stórstjörnurnar Magic Johnson og Kareem Abdul-Jabbar með Lakers árið 1982.

Chicago Bulls vann óvæntan útisigur á San Antonio Spurs, 98:93, eftir að hafa verið um tíma 21 stigi undir. Finninn ungi Lauri Markkanen var gríðarlega öflugur með Chicago en hann skoraði 23 stig og tók 7 fráköst. Kris Dunn var þó stigahæstur með 24 stig.

Orlando - Utah 96:89
Charlotte - LA Lakers 100:128
Detroit - Boston 113:104
Memphis - Houston 97:105
San Antonio - Chicago 93:98
Oklahoma City - LA Clippers 110:104
Phoenix - Minnesota 107:99

mbl.is