Leiðinlegur sunnudagur í janúar

Hlynur Bæringsson í baráttunni við Gerald Robinson, leikmann ÍR, fyrr …
Hlynur Bæringsson í baráttunni við Gerald Robinson, leikmann ÍR, fyrr í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Brandon setti niður tvo þrista á mikilvægu augnabliki og Antti líka og þá datt mómentið aðeins með okkur og við litum aldrei til baka eftir það,“ sagði Hlynur Bæringsson, fyrirliði Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 106:83-sigur liðsins gegn ÍR í 12. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í Seljaskóla í kvöld.

„Við leiddum meira og minna allan leikinn en þeir önduðu duglega í hálsmálið á okkur allan fyrri hálfleikinn og í upphafi þriðja leikhluta. Við fengum tækifæri til þess að drepa leikinn fyrr en sem betur fer tókst það í fjórða leikhluta. Maður er meira tilbúinn í slaginn þegar maður kemur hingað því það eru meiri læti hér en annars staðar í deildinni og það er alltaf gaman að spila hérna. Það er leiðinlegur sunnudagur í janúar og Landinn er ekki einu sinni á dagskrá, þannig að það var mjög auðvelt að gíra sig upp í leikinn. Af því leiðir að menn verða aðeins pirraðir og láta finna fyrir sér en þetta var ekkert alvarlegt.“

Hlynur segir mikilvægt fyrir Stjörnuna að koma sér ofar í töfluna fyrir átökin fram undan í úrslitakeppninni sem hefst í apríl.

„Það var mjög mikilvægt að vinna þennan leik í kvöld. Deildin er aðeins að skiptast upp og það eru sex lið núna í alvöru baráttu um efstu sætin og það er mikilvægt að koma sér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina enda deildin mjög sterk. Við erum á réttri leið en varnarleikurinn hjá okkur þarf að batna og við getum lagað hann. Ég trúi því samt sem áður, að þegar leikirnir verða stærri, þá förum við að spila almennilegan varnarleik,“ sagði Hlynur Bæringsson í samtali við mbl.is.

mbl.is