Rozzell með sýningu í fyrsta leik

Ægir Þór Steinarsson sækir að körfu ÍR-inga í kvöld.
Ægir Þór Steinarsson sækir að körfu ÍR-inga í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Brandon Rozzell átti stórleik fyrir Stjörnuna í sínum fyrsta leik fyrir félagið og skoraði 37 stig þegar Stjarnan heimsótti ÍR í Hertz-hellinn í Breiðholtinu í kvöld í 12. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik en leiknum lauk með öruggum sigri Stjörnunnar, 106:83.

Heimamenn í ÍR byrjuðu leikinn af miklum krafti líkt og Garðbæingar og var mikið jafnræði með liðunum. Stjarnan spilaði hörkuvörn í fyrsta leikhluta en ÍR-ingar voru ólseigir og héldu vel í við Garðbæinga en staðan eftir fyrsta leikhluta var 30:26, Stjörnunni í vil. Stjarnan byrjaði annan leikhluta mun betur og náði snemma níu stiga forskoti. Alltaf komu Breiðhyltingar til baka og tókst þeim að minnka muninn niður í tvö stig en alltaf gerði Stjarnan áhlaup og var munurinn á liðunum fjögur stig þegar gengið var inn til hálfleiks, 53:49.

Jafnræði var með liðunum í upphafi þriðja leikhluta en bæði lið létu dómgæsluna fara mikið í taugarnar á sér. Stjarnan náði mest 11 stiga forskoti og það fór fyrir brjóstið á Gerald Robinson sem lét reka sig úr húsi stuttu síðar. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 79:70, Stjörnunni í vil. Í fjórða leikhluta var hausinn alveg farinn hjá Breiðhyltingum og Stjarnan gekk á lagið. Munurinn á liðunum var orðinn fjórtán stig eftir um 35 mínútna leik og svo fór að lokum að Stjarnan vann 23 stiga sigur.

Kevin Capers var stigahæstur hjá ÍR með 23 stig, fjögur fráköst og fjórar stoðsendinga en hjá Stjörnunni var títtnefndur Rozzell atkvæðamestur með 37 stig, þrjú fráköst og fjórar stoðsendingar. ÍR er áfram í áttunda sæti deildarinnar með 8 stig, líkt og Haukar, en Stjarnan er í fjórða sætinu með 16 stig, jafn mörg stig og Keflavík.

ÍR - Stjarnan 83:106

Hertz-hellirinn - Seljaskóli, Úrvalsdeild karla, 6. janúar 2019.

Gangur leiksins:: 8:7, 8:13, 18:18, 24:30, 33:37, 40:46, 44:51, 49:53, 54:58, 61:63, 65:76, 70:79, 74:85, 74:94, 80:99, 83:106.

ÍR: Kevin Capers 23/4 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 16/4 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/9 fráköst, Skúli Kristjánsson 8, Gerald Robinson 7/4 fráköst, Sæþór Elmar Kristjánsson 6, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 5/5 fráköst, Benoný Svanur Sigurðsson 4, Trausti Eiríksson 2/5 fráköst.

Fráköst: 27 í vörn, 9 í sókn.

Stjarnan: Brandon Rozzell 37, Hlynur Elías Bæringsson 16, Collin Anthony Pryor 14/9 fráköst, Antti Kanervo 14/6 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 9/5 fráköst/5 stoðsendingar, Arnþór Freyr Guðmundsson 7, Magnús B. Guðmundsson 4, Tómas Þórður Hilmarsson 3/6 fráköst, Dúi Þór Jónsson 2.

Fráköst: 27 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Aðalsteinn Hjartarson, Ísak Ernir Kristinsson, Einar Þór Skarphéðinsson.

Áhorfendur: 213

ÍR 83:106 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is