Rambo kominn til Valsmanna

Dominique Rambo í búningi Vals.
Dominique Rambo í búningi Vals. Ljósmynd/Facebook-síða Vals

Karlalið Vals í körfuknattleik hefur fundið arftaka fyrir Kendall Anthony sem yfirgaf félagið á dögunum. Í dag var tilkynnt að félagið hefði samið við bandarískan leikmann að nafni Dominique Rambo.

Anthony fór á kostum með Val í Dominos-deildinni fyrri hluta tímabilsins og skoraði yfir 30 stig að meðaltali í leik. Um helgina var tilkynnt að Valur hefði kom­ist að sam­komu­lagi við franska A-deild­arliðið Gra­vel­ines-Dun­kerque um að Anthony gangi í raðir fé­lags­ins.

Rambo er 27 ára gamall leikstjórnandi frá Dallas í Texas og spilaði síðast í Sviss. Valsmenn eru í 9. sæti Dominos-deildarinnar með 8 stig eftir 12 leiki og mætir bikarmeisturum Tindastóls í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert