Eigum ennþá langt í land

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, stappar stálinu í sína menn ...
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari KR, stappar stálinu í sína menn á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Hari

„Við ætluðum okkur að vinna þennan leik og miðað við það hvernig hann spilaðist þá er ég mjög sáttur með þennan sigur, sagði Ingi Þór Steinþórsson,“ þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 80:76-sigur liðsins gegn Keflavík í 13. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld.

„Við lendum fjórum stigum undir þegar tæpar fjórar mínútur eru eftir og þá stígum við virkilega vel upp í varnarleiknum og náum nokkrum góðum stoppum í röð. Julian Boyd tekur svo trölla sóknarfrákast og þar kláraðist leikurinn. Við lentum í svipaðri stöðu í Keflavík í fyrri umferðinni en þá gerðum við mistök á lokamínútunum sem kostuðu okkur leikinn. Keflavík er með frábært lið og það var mjög mikilvægt að vinna hérna í kvöld og koma sér þannig upp fyrir þá í töflunni. Við erum með báða fætur á jörðinni og ætlum okkur ekki að fara fram úr okkur sjálfum. Við eigum ennþá langt í land og við erum ennþá að læra á hvorn annan.“

Pavel Ermolinskij átti mjög góðan leik fyrir KR en hann var að koma tilbaka eftir meiðsli sem hafa haldið honum frá keppni í tæpa tvo mánuði. Pavel átti mjög góðan leik, skoraði 11 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

„Það var frábært að sjá Pavel hérna í dag. Hann kemur inn í dag eftir meiðsli og leggur strax línurnar. Hann er ekki kominn í sitt besta form en hann býr yfir það miklum gæðum að hann nýtist okkur alltaf vel. Það var kominn tími á að hann myndi spila og hann sýndi það í kvöld hversu megnugur hann er í körfubolta,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson í samtali við mbl.is.

mbl.is