Botnliðið vann toppliðið – Towns tók 27 fráköst

Karl-Anthony Towns tók 27 fráköst og skoraði 27 stig fyrir …
Karl-Anthony Towns tók 27 fráköst og skoraði 27 stig fyrir Minnesota Timberwolves í nótt. AFP

Botnliðið í Vesturdeild NBA-deildarinnar í körfuknattleik, Phoenix Suns, vann í nótt óvæntan sigur á toppliði deildarinnar, Denver Nuggets, 102:93.

Þetta er aðeins ellefti sigur Phoenix í 44 leikjum á tímabilinu og liðið er átta sigurleikjum á eftir næsta liði vestan megin en er reyndar með betri árangur en þrjú neðstu lið Austurdeildarinnar. Denver er áfram með besta stöðu í Vesturdeildinni en tapaði í þrettánda skipti í 41 leik í vetur. Liðið er með eins sigurs forskot á meistarana í Golden State Warriors.

Kelly Oubre skoraði 26 stig fyrir Phoenix og Deandre Ayton 22 en Nikola Jokic, miðherji frá Serbíu, skoraði 23 stig fyrir Denver og tók 10 fráköst.

Karl-Anthony Towns náði ótrúlegri tvennu með 27 stig og 27 fráköst fyrir Minnesota Timberwolves í sigri liðsins á New Orleans Pelicans, 110:106. Enginn hefur leikið þennan leik í deildinni í 45 ár og 27 fráköst er það mesta hjá leikmanni í deildinni á þessu tímabili.

Aaron Gordon skoraði 28 stig fyrir Orlando Magic og tók 12 fráköst í sigri liðsins á Boston Celtics, 105:103.

Russell Westbrook var með 24 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar fyrir Oklahoma City Thunder sem lagði San Antonio Spurs, 122:112.

Blake Griffin skoraði 44 stig fyrir Detroit Pistons í góðum útisigri á LA Clippers, 109:104.

Donovan Mitchell fór yfir 30 stigin þriðja leikinn í röð með Utah Jazz þegar liðið lagði Chicago Bulls 110:102. Finninn Lauri Markkanen skoraði 16 stig fyrir Chicago.

Úrslitin í nótt:

LA Clippers - Detroit 104:109
Miami - Memphis 112:108
Orlando - Boston 105:103
Minnesota - New Orleans 110:106
Oklahoma City - San Antonio 122:112
Phoenix - Denver 102:93
Utah - Chicago 110:102
Sacramento - Charlotte 104:97

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert