Curry fór á kostum

Stephen Curry skoraði 48 stig í nótt.
Stephen Curry skoraði 48 stig í nótt. AFP

Stephen Curry fór á kostum í liði meistaranna í Golden State Warriors þegar þeir báru sigurorð af Dallas 119:114 í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Curry skoraði 48 stig í fjórða sigri Golden State í röð. Hann setti niður 11 þriggja stiga körfur, skoraði 24 stig í seinni hálfleik og skoraði sjö síðustu stig sinna manna. Kevin Durant skoraði 28 stig og Kly Thompson 16. Slóveninn Luka Doncic, sem þykir líklegur til að verða valinn nýliði ársins, skoraði 26 stig fyrir Dallas, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar og Harrison Barnes skoraði 22.

Serge Ibaka tryggði Toronto Raptors sigurinn gegn Washington Wizards þegar hann skoraði sigurkörfuna 15 sekúndum fyrir leikslok með þriggja stiga skoti og Toronto hrósaði sigri 140:138 í framlengdum leik. Kawhi Leonard skoraði 41 stig fyrir Toronto, framlag hans í framlengingunni vó þungt en hann skoraði 10 stig í henni. Bradley Beal var allt í öllu í liði Washington en hann náði þrefaldri tvennu, skoraði 43 stig, tók 15 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

James Harden skoraði 30 stig eða meira í 16. leiknum í röð fyrir Houston Rockets sem tapaði fyrir Orlando. Harden skoraði 38 stig í leiknum.

Úrslitin í nótt:

LA Lakers - Cleveland 95:101
Orlando - Houston 116:109
Denver - Portland 116:113
Dallas - Golden State 114:119
Atlanta - Milwaukee 114:133
New York - Philadelphia 105:108
Washington - Toronto 138:140 (framl.)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert