Mikilvægur sigur Hauks í Meistaradeildinni

Haukur Helgi Pálsson var sterkur.
Haukur Helgi Pálsson var sterkur. Ljósmynd/FIBA

Haukur Helgi Pálsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, fagnaði afar mikilvægum sigri með liði sínu Nanterre frá Frakklandi gegn gríska liðinu PAOK í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld, 79:70.

Jafnt var svo að segja á öllum tölum, en Nanterre var yfir í hálfleik 43:41. Það var ekki fyrr en í fjórða leikhluta sem Haukur Helgi og félagar sigu fram úr að ráði og uppskáru níu stiga sigur 79:70. Haukur spilaði í rúmar 25 mínútur í leiknum, skoraði fimm stig og tók níu fráköst.

Með sigrinum komst Nanterre upp fyrir PAOK í B-riðli keppninnar og er nú í fjórða sæti með 17 stig. Efstu fjögur liðin fara áfram í næstu umferð á meðan fimmta og sjötta sætið detta niður í Evrópubikarinn. Liðin í sjöunda og áttunda sæti eru svo úr leik í Evrópukeppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert