Gengið á ýmsu hjá okkur í vetur

Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í kvöld.
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, á hliðarlínunni í kvöld. mbl.is/Eggert

„Ég er virkilega stoltur af liðinu og strákunum eftir þennan sigur. Bæði baráttan og viljinn var til fyrirmyndar hjá okkur í kvöld,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 73:66-sigur Hauka gegn Tindastóli í 14. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Hilmar var búinn að eiga nokkra slæma leiki að undanförnu en við færðum hann aðeins til og settum hann í bakvarðarstöðuna í kvöld og hann steig virkilega vel upp. Ég vil ekki taka neinn einn leikmann út eftir þennan sigur því þetta var fyrst og fremst liðssigur og það var liðið sem vann þennan leik fyrir okkur. Allir sem komu við sögu í leiknum gáfu allt í þetta, sama hversu mikið þeir spiluðu. Við fengum einhvern aukakraft í okkur í þriðja og fjórða leikhluta og þar vannst leikurinn. Það hefur gengið á ýmsu hjá okkur og við höfum aldrei verið með fullskipaðan leikmannahóp í allan vetur. Við erum búnir að vera að ganga í gegnum ákveðið mótlæti og þess vegna var mjög mikilvægt að vinna þennan leik í kvöld.“

Russell Woods átti góðan leik í liði Hauka og skoraði 14 stig, tók sautján fráköst og gaf tvær stoðsendingar og var þjálfarinn ánægður með hans framlag í kvöld.

„Við erum enn þá að læra á Russell og hann er að læra á okkur. Við breyttum aðeins kerfunum í vikunni til þess að koma honum betur inn í leikinn og strákarnir gerðu mjög vel í kvöld og ég ætla að vona núna að við höldum áfram á sömu braut,“ sagði Ívar Ásgrímsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert