Þurfum að núllstilla okkur

Israel Martín, þjálfari Tindastóls, var sáttur með vinnuframlag sinna manna …
Israel Martín, þjálfari Tindastóls, var sáttur með vinnuframlag sinna manna í kvöld. mbl.is/Hari

„Við vorum inni í leiknum allan tímann. Við reyndum að finna lausnir í sóknarleiknum en þetta datt ekki með okkur í kvöld,“ sagði Israel Martín, þjálfari Tindastóls, í samtali við mbl.is eftir 73:66-tap sinna manna gegn Haukum í 14. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik á Ásvöllum í kvöld.

„Við þurfum að gera allt sem við getum til þess að komast aftur í okkar besta form. Við verðum að spila betur varnarlega og setja meiri kraft í varnarleikinn þrátt fyrir að þeir hafi aðeins skorað 73 stig á okkur í kvöld. Ég get ekki kvartað yfir hugarfarinu hjá mínum mönnum í kvöld. Við börðumst allan tímann en núna þurfum við að núllstilla okkur því það leit út eins og við værum að spila undir einhverri pressu í kvöld, sem við vorum alls ekki að gera. Við erum vissulega eitt af betri liðum deildarinnar en allir leikir eru erfiðir í þessari deild, meðal annars vegna þess að það vilja öll lið vinna okkur.“

Urald King var ekki með Tindastóli í kvöld en Israel Martín vildi ekki gera of mikið úr fjarveru hans.

„Urald King er mikilvægur leikmaður fyrir okkur en við erum með öfluga leikmenn í hverri stöðu og fjarvera hans á ekki að hafa áhrif á okkur. Öll lið sakna góðra leikmanna en sem betur fer er ég með marga góða leikmenn í mínu liði,“ sagði Israel Martín í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert