Njarðvík hélt KR í 55 stigum

Elvar Már Friðriksson sækir að körfu KR-inga í kvöld.
Elvar Már Friðriksson sækir að körfu KR-inga í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvík er í efsta sæti úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Dominos-deildarinnar, eftir sigur á Íslandsmeisturum KR 71:55 í 17. umferð í DHL-höllinni í kvöld. 

Njarðvíkingar eru með 28 stig, tveimur á undan Stjörnunni en KR-ingar eru í fjórða sætinu með 22 stig.

KR-ingar voru ískaldir í kvöld eins og úrslitin gefa til kynna. Leikmenn liðsins tóku tuttugu og átta skot fyrir utan þriggja stiga línuna og settu einungis fjögur þeirra niður. Með slíkri skotnýtingu verður toppliðið ekki lagt að velli. 

Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleik en að honum loknum var Njarðvík stigi yfir 31:30. Í þriðja leikhluta settu Njarðvíkingar niður nokkra þrista og byggðu þá upp forskot sem dugði þeim til sigurs. 

Leikurinn í kvöld var skrítinn á margan hátt. Ef horft er á sóknina hjá Njarðvík þá er frekar auðvelt að skilgreina hvað gekk vel þar. Bakverðirnir og smærri framherjarnir voru öflugir en hávöxnu leikmennirnir áttu erfitt uppdráttar. Elvar skoraði 22 stig og Jeb Ivey gerði 17 stig. 

Þrátt fyrir að KR-liðið ætti slakan dag tókst Julian Boyd engu að síður að sýna að hann er alvöru leikmaður. Hann var sá eini sem setti skotin sín niður og skilaði 29 stigum eða meira en helmingi stiga liðsins. Aðrir leikmenn KR voru talsvert frá sínu besta. 

KR 55:71 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert