Meistararnir á góðu skriði

Kevin Durant skoraði 39 stig í sigri Golden State í …
Kevin Durant skoraði 39 stig í sigri Golden State í nótt. AFP

Meistararnir í Golden State Warriors eru á góðu skriði í NBA-deildinni í körfuknattleik en þeir höfðu í nótt betur gegn Miami Heat 120:118.

DeMarcus Cousins sá um að tryggja Golden State 15. sigurinn í síðustu 16 leikjum þegar hann skoraði úr tveimur vítaskotum fimm sekúndum fyrir leikslok. Kevin Durant skoraði 39 stig fyrir meistarana, Klay Thompson 29 og Stephen Curry 25. Josh Richardson var atkvæðamestur í liði Miami með 37 stig.

Kamerúninn Joel Embiid skoraði 37 stig og tók 14 fráköst fyrir Philadelphia 76ers í sigri gegn Los Angeles Lakers 143:120. Tobias Harris setti niður 22 stig, JJ Redick 22. LeBron James skoraði 18 stig fyrir Lakers, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar.

Nýliðinn frábæri Luka Doncic sá um að tryggja Dallas sigurinn gegn Portland með því að skora þriggja stiga körfu undir lok leiksins og Dallas fagnaði eins stigs sigri 102:101. Doncic skoraði 28 stig, tók 9 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í leiknum.

Úrslitin í nótt:

Atlanta - Orlando 108:124
Golden State - Miami 120:118
Philadelphia - LA Lakers 143:120
Sacramento - Phoenix 117:104
Dallas - Portland 102:101

mbl.is