30 stig eða meira í 30. leiknum í röð

James Harden skoraði 31 stig í nótt.
James Harden skoraði 31 stig í nótt. AFP

James Harden náði að skora 30 stig eða meira í 30. leiknum í röð þegar Houston Rockets bar sigurorð af Dallas Mavericks 120:104 í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Harden er aðeins annar leikmaðurinn í sögu NBA-deildarinnar til að ná þessum áfanga en goðsögnin Wilt Chamberlain náði því á árum áður.

Það stefndi þó lengi vel í að Harden tækist ekki að ná 30 stiga múrnum því hann var í strangri gæslu hjá liðsmönnum Dallas. Þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka var Harden aðeins búinn að skora 20 stig. Þegar rétt tæpar tvær mínútur voru eftir af leiknum skoraði hann þriggja stiga körfu og var þar með kominn með 26 stig og hann bætti við tveimur stigum úr vítaskotum mínútu síðar. Vel studdur af áhorfendum í Toyota Center skoraði svo Harden þriggja stiga körfu og lauk leiknum með 31 stig. Luka Doncic var stigahæstur hjá Dallas með 21 stig.

Kawhi Leonard tryggði Toronto Raptors sigurinn gegn Brooklyn Nets með því að skora sigurkörfuna 4 sekúndum fyrir leikslok. Leonard skoraði 30 stig í leiknum og var stigahæstur sinna manna en D'Angelo Russell var atkvæðamestur í liði Brooklyn með 28 stig.

Giannis Antetokounmpo eða „gríska undrið“ eins og hann er jafnan kallaður skoraði 29 stig og tók 17 fráköst fyrir Milwaukee í sigri liðsins gegn Chicago og Paul George átti stórleik fyrir Oklahoma City Thunder þegar liðið bar sigurorð af Portland. George skoraði 47 stig í leiknum og Russell Westbrook náði enn einni þrefaldri tvennunni en hann skoraði 21 stig, tók 14 fráköst og gaf 11 stoðsendingar.

Úrslitin í nótt:

Toronto - Brooklyn 127:125
Denver - Miami 103:87
Chicago - Milwaukee 99:112
Houston - Dallas 120:104
Oklahoma - Portland 120:111
Cleveland - New York 107:104
Detroit - Washington 121:112
Indiana - Charlotte 99:90

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert