Berlínarmúr Martins og félaga heldur enn

Martin Hermannsson og félagar eru í 4. sæti en eiga ...
Martin Hermannsson og félagar eru í 4. sæti en eiga leik eða leiki til góða á næstu lið. Ljósmynd/eurocupbasketball.com

Martin Hermannsson fagnaði sigri með liði sínu Alba Berlín í kvöld þegar liðið lagði Braunschweig að velli, 82:74, í efstu deild Þýskalands í körfubolta.

Braunschweig minnkaði muninn niður í sex stig þegar ein og hálf mínúta var eftir en Martin fór langt með að gera út um leikinn með þriggja stiga körfu í næstu sókn heimamanna.

Martin skoraði alls 10 stig í leiknum á 25 mínútum og átti 8 stoðsendingar, auk þess að taka 2 fráköst.

Alba Berlín hefur þar með enn ekki tapað leik á heimavelli í vetur heldur unnið alla níu leiki sína þar. Liðið er í 4. sæti með 28 stig eftir 18 leiki, tveimur stigum á eftir næstu tveimur liðum og með leik eða leiki til góða, en Bayern München er taplaust á toppnum með 38 stig.

mbl.is