Treysta á grunnatriðin

Darri Freyr Atlason þjálfari Vals ræðir við leikmenn sína.
Darri Freyr Atlason þjálfari Vals ræðir við leikmenn sína. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það reikna flestir með hörkuleik þegar Valur og Snæfell leiða saman hesta sína í undanúrslitum Geysisbikarsins í körfuknattleik kvenna í Laugardalshöllinni í kvöld.

Liðin eru á svipuðu róli í Dominos-deildinni þar sem Valur er í þriðja sætinu með 28 stig en Snæfell í sætinu fyrir neðan með 24 stig. Valskonur hafa hins vegar verið á gríðarlegri siglingu með Helenu Sverrisdóttur í broddi fylkingar.

„Það er búið að ganga vel í deildinni en bikarinn er allt önnur keppni og stelpurnar þurfa að vera vel einbeittar og við öllu búnar,“ sagði Darri Freyr Atlason þjálfari Vals við mbl.is.

„Lið Snæfells er mjög gott sem við berum mikla virðingu fyrir og sérstaklega þeim leikmönnum sem hafa gert þetta allt saman oft áður. Við þurfum að passa okkur að vera vel búin undir allar aðstæður sem geta komið upp í leiknum og eina leiðin til að gera það er að treysta á grunnatriðin í því sem við erum að gera og sjá hvernig við getum beitt þeim á móti hverju sem Snæfell býður upp á. Ég þarf að reyna að selja stelpunum þetta og þær þurfa að kaupa þetta og skilja og geta framkvæmt hlutina þegar út í leikinn kemur,“ sagði Darri Freyr.

Valur lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð en tapaði þeirri rimmu fyrir Haukum.

„Það var alveg frábær stemning hjá okkur og stuðningsmönnum okkar í úrslitaseríunni í fyrra og við biðlum til allra Valsmanna að búa til svipaða stemningu núna og taka þátt í því að koma ártali á vegginn á Hlíðarenda. Við njótum góðs af því að hafa spilað til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn enda er meginþorri leikmanna hjá okkur í dag sem tók þátt í þeim leikjum,“ sagði Darri Freyr.

Um viðureign Stjörnunnar og Breiðabliks sagði Darri:

„Það er leikur sem Stjarnan á að vinna og ég býst fastlega við að svo verði.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert