Ivey: Stjörnumenn eiga hrós skilið

Njarðvíkingar voru fjölmennir í Höllinni í dag.
Njarðvíkingar voru fjölmennir í Höllinni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jeb Ivey, einn af lykilmönnum Njarðvíkur, hrósaði Garðbæingum mjög fyrir þeirra frammistöðu í úrslitaleik Geysis-bikarsins í körfuknattleik í Laugardalshöll í dag. 

 „Þeir voru aðeins fastari fyrir en við. Fyrir vikið fengu þeir fleiri opin skot, meira svigrúm í kringum körfuna og fóru oftar á vítalínuna. Þeir byrjuðu leikinn vel og fundu strax taktinn en við börðumst áfram og vorum sjaldnast langt á eftir. Stundum flýttum við okkur um of en ég hrósa Stjörnunni fyrir þeirra frammistöðu,“ sagði Ivey þegar mbl.is ræddi við hann í Laugardalshöllinni. 

Njarðvík var yfir 9:6 en eftir það var Stjarnan með forskot. Það hlýtur að vera erfitt að þurfa að elta forskot nærri því heilan bikarúrslitaleika? „Já það er vissulega erfitt og maður vill helst ekki byrja leik eins og við gerðum í dag. En Stjörnumenn eiga hrós skilið. Þeir voru ákveðnir í sínum aðgerðum. Okkur vantaði ekki sjálfstraustið og getum unnið leiki þótt við lendum undir en það hafðist ekki að þessu sinni,“ sagði Ivey og sagði það ekki hafa skipt máli í úrslitaleiknum þótt Njarðvík hafi mætt sterku liði KR á fimmtudagskvöldið. 

Jeb Ivey, Njarðvík
Jeb Ivey, Njarðvík mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert