Stjarnan bikarmeistari í fjórða sinn

Stjarnan varð í dag bikarmeistari karla í körfuknattleik í fjórða skipti á ellefu árum. Liðið vann Njarðvík í úrslitum Geysisbikarsins í Laugardalshöllinni í dag 84:68.  

Stjarnan tók frumkvæðið í leiknum strax í fyrsta leikhluta. Njarðvík var yfir 9:6 en aldrei eftir það. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 41:32. 

Þótt Njarðvík tækist ekki að jafna þá nartaði liðið í hæla Stjörnunnar og var ekki langt undan. Eftir þrjá leikhluta munaði aðeins þremur stigum á liðunum. En Garðbæingar náðu alltaf að skora á mikilvægum augnablikum og slitu sig endanlega frá Njarðvíkingum á síðustu þremur mínútunum eða svo. Ekki svo ósvipað því hvernig undanúrslitaleikurinn þróaðist hjá Stjörnunni og ÍR. 

Lið Stjörnunnar er afar vel mannað og vel skipulagt. Ekki er að ástæðulausu að liðið hefur nú unnið fjórtán leiki í röð í deild og bikar. Í leikmannahópi liðsins eru margir sem geta lagt í púkkið. Brandon Rozzell átti frábæran leik og var valinn maður leiksins en hann skoraði 30 stig. Hlynur Bæringsson er alltaf drjúgur og leiðtogahæfni hans nýtist í svona leikjum. Ægir Þór Steinarsson hélt býsna vel aftur af Elvari Má Friðrikssyni sem er ekki auðvelt verkefni. Antti Kanervo er virkilega góður leikmaður og Collin Pryor skilaði stigum í seinni hálfleik eins og hann gerði í undanúrslitunum. Þá fékk Stjarnan gott framlag frá Filip Kramer í vörninni. 

Njarðvíkingar eiga það til að sökkva liðum með langskotum þegar þeir eru í því stuðinu. Því var ekki að heilsa í dag jafnvel þótt liðið hafi ná að skora 10 þriggja stiga körfur. Logi Gunnarsson skoraði 11 stig, Jeb Ivey 12 stig, Elvar 8 stig og Maciej Baginski 1 stig. Einhverjir þessara leikmanna þurfa að eiga leik þar sem þeir eru atkvæðameiri til að vinna bikarinn. 

Áhorfendur í höllinni í dag voru 2.100 og var stemningin með besta móti hjá stuðningsmönnum beggja liða. Garðbæingar fögnuðu geysilega með stuðningsmönnum sínum um leið og lokaflautið gall. Þegar úrslitin lágu fyrir var gamli slagari Bjartmars Guðlaugssonar, Týnda kynslóðin, spiluð í höllinni og leikmenn Stjörnunnar stigu létt dansspor á miðjum vellinum. Ekki hef ég fyrr heyrt um íþróttatengingu við þetta lag en við fáum væntanlega útskýringar á því síðar í dag. 

Stjarnan vann sannfærandi sigur gegn ÍR í undanúrslitum keppninnar á meðan Njarðvík hafði betur gegn KR.

Stjarnan - Njarðvík 84:68

Laugardalshöll, Bikarkeppni karla, 16. febrúar 2019.

Gangur leiksins:: 4:2, 9:9, 16:9, 23:18, 28:21, 34:26, 37:26, 41:32, 44:36, 51:43, 53:48, 60:57, 67:59, 70:65, 78:66, 84:68.

Stjarnan: Brandon Rozzell 30, Hlynur Elías Bæringsson 13/14 fráköst, Antti Kanervo 11, Collin Anthony Pryor 9/5 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 8/8 stoðsendingar, Filip Kramer 7/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 4/4 fráköst, Magnús B. Guðmundsson 2.

Fráköst: 31 í vörn, 6 í sókn.

Njarðvík: Mario Matasovic 19/5 fráköst, Jeb Ivey 12/4 fráköst/5 stoðsendingar, Eric Katenda 11/6 fráköst, Elvar Már Friðriksson 8/8 fráköst/7 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 7, Ólafur Helgi Jónsson 6/4 fráköst, Kristinn Pálsson 3, Maciek Stanislav Baginski 1, Snjólfur Marel Stefánsson 1.

Fráköst: 28 í vörn, 4 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Áhorfendur: 2100

Stjarnan 84:68 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert