Höttur missteig sig gegn Hamri

Róbert Sigurðsson skoraði 20 stig fyrir Fjölnismenn gegn Snæfelli í …
Róbert Sigurðsson skoraði 20 stig fyrir Fjölnismenn gegn Snæfelli í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Höttur missteig sig í toppbaráttu 1. deildar karla í körfuknattleik í kvöld þegar Hamar kom í heimsókn austur á Egilsstaði en leiknum lauk með 96:75-sigri Hamars.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og leiddu Hattarmenn með einu stigi í hálfleik. Höttur átti afleitan fjórða leikhluta þar sem liðinu tókst einungis að skora 12 stig gegn 27 stigum Hamars og Hvergerðingar fögnuðu því sigri.

Fjölnir styrkti stöðu sína í öðru sæti deildarinnar með öruggum sigri gegn Snæfelli í Grafarvogi en leiknum lauk með 89:65-sigri Fjölnis. Fjölnismenn leiddu með 17 stigum í hálfleik og þar með var sigurinn unninn. Þá hafði Vestri betur gegn Selfossi í háspennuleik á Selfossi, 97:95, en úrslitin réðust á lokamínútum leiksins.

Þór Akureyri er á toppi deildarinnar með 28 stig eftir sautján leiki og Fjölnir er í öðru sætinu með 24 stig eftir sautján leiki. Höttur og Vestri eru bæði með 22 stig í þriðja og fjórða sætinu en Höttur á leik til góða á toppliðin. Hamar er í fimmta sæti deildarinnar með 20 stig og Selfoss er í sjötta sætinu með 14 stig. Sindri og Snæfell eru í neðstu sætum deildarinnar með 2 stig hvor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert