Reykingastybba og drasli fleygt í fyrsta leiknum

Hlynur Bæringsson ætlar að láta gott heita og kveður landsliðið …
Hlynur Bæringsson ætlar að láta gott heita og kveður landsliðið í Laugardalshöll á fimmtudag. mbl.is/Eggert

„Þetta hefur alveg hvarflað að mér síðustu ár en svo hef ég hugsað þetta vel upp á síðkastið og ákvað að þetta væri fín tímasetning,“ segir Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, sem leikur sinn 125. og jafnframt kveðjulandsleik á fimmtudagskvöld í Laugardalshöll.

Hlynur lék sinn fyrsta landsleik 17 ára gamall, í febrúar árið 2000, svo landsliðsferillinn spannar nítján ár. Á meðal hápunkta eru fyrstu tvö stórmót íslenska landsliðsins en Hlynur leiddi liðið inn á EM 2015 og EM 2017. Nú lætur hann gott heita, rétt eins og Jón Arnór Stefánsson sem einnig kveður með leiknum við Portúgal á fimmtudaginn.

Vil hætta áður en ég verð fljótandi með

„Það er ekki svo að ég sé kominn með leið á því að vera í landsliðinu, alls ekki. Ef að hlutirnir væru þannig að ég væri enn þá í atvinnumennsku og svona þá væri ég til í að spila með því þangað til að ég gæti ekki meir. Þetta er orðið erfitt þegar maður er hérna heima og er bara í vinnu og meira harki með fjögur börn og svona. Sérstaklega þegar maður þarf að fara út í einhvern tíma. Síðan vil ég líka hætta á meðan að þetta er þannig að ég er valinn, en ekki bara fljótandi með af því að maður hefur alltaf verið þarna,“ segir Hlynur við mbl.is og hann kveðst skilja við landsliðið í góðum málum:

Hlynur Bæringsson fór með Íslandi á tvö stórmót og leikir …
Hlynur Bæringsson fór með Íslandi á tvö stórmót og leikir við stórþjóðir körfuboltans á þeim mótum standa upp úr á landsliðsferlinum. AFP

„Við áttum okkar bestu tíma síðustu 3-4 árin. Það hefur komið smádýfa núna eins og gengur og gerist en vonandi náum við okkur bara beint upp úr henni. Landsliðsmálin hafa sjaldan verið betri og framtíðin er nokkuð björt ef vel verður haldið á spöðunum, sem er auðvitað ekki sjálfgefið.“

Fyrsta stórmótið stendur upp úr

Hlynur segir Evrópumótin tvö vissulega standa upp úr, ekki síst það fyrra enda hafi fáir ef einhverjir reiknað með því að Ísland kæmist í lokakeppni stórmóts í körfubolta:

„Fyrra stórmótið, í Berlín 2015, var sérstaklega geggjað. Það er hápunktur sem að maður bjóst aldrei við því að ná. Það var ógleymanlegt, líka vegna þess að við mættum svo stórum þjóðum og þetta var í Þýskalandi. Við spiluðum við Dirk Nowitzki, Pau Gasol og fleiri. Þetta er mjög ljúf minning,“ segir Hlynur.

NBA-stjörnur á borð við Dirk Nowitzki hafa verið meðal andstæðinga …
NBA-stjörnur á borð við Dirk Nowitzki hafa verið meðal andstæðinga Hlyns á landsliðsferlinum. AFP

Fyrsti landsleikur Hlyns, sem þá var 17 ára strákur í Borgarnesi, var á útivelli gegn Makedóníu fyrir nítján árum:

„Ég man eftir því að það var mikið reykt þarna inni, þannig að það var ekki gott loft þarna, og svo var verið að kasta einhverju drasli í okkur. Ég spilaði nú ekki mikið, bara nokkrar mínútur í restina, og við skíttöpuðum. En þarna voru algjörir meistarar eins og Hebbi Arnars og Teitur Örlygs, menn sem maður leit þvílíkt mikið upp til, sem gerði þetta líka að mjög góðri minningu. Þetta var stórt svið að koma inn á og maður hafði aldrei upplifað svona mikla stemningu,“ segir Hlynur sem að sama skapi vonast eftir góðri stemningu á fimmtudaginn þegar hann stígur niður af landsliðssviðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert