„Sá enga ástæðu til að hengja manninn“

Stjörnumenn fögnuðu bikarmeistaratitlinum vel með sínu fólki á laugardaginn. Stuðningsmaðurinn …
Stjörnumenn fögnuðu bikarmeistaratitlinum vel með sínu fólki á laugardaginn. Stuðningsmaðurinn sem sagt er frá í greininni er ekki á þessari mynd. mbl.is/Eggert

Formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar kveðst ekki hafa talið ástæðu til þess að banna stuðningsmanni liðsins, sem veitti stuðningsmanni ÍR hnefahögg í Laugardalshöll í síðustu viku, að mæta á bikarúrslitaleikinn við Njarðvík á laugardag.

Þetta kemur fram á Vísi í dag en þar segir að stuðningsmaðurinn hafi mætt á úrslitaleikinn þrátt fyrir varnaðarorð Hannesar S. Jónssonar, formanns KKÍ, sem mælti fyrir því að Stjörnumenn sæju til þess að hann léti sér nægja að horfa á leikinn í sjónvarpinu.

„Þessi einstaklingur hefur komið á marga leiki hjá okkur, æft körfubolta og starfað fyrir körfuknattleiksdeildina. Ég lít þannig á að við höfðum bara tvo möguleika í stöðunni. Annars vegar að setja hann í langt bann. Eitt eða tvö ár eða gefa manninum gult spjald og gera honum grein fyrir því að svona framkoma væri ekki í boði,“ segir Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, við Vísi. Hann segir aðeins hafa verið tímaspursmál hvenær upp úr syði á milli stuðningsmanna félaganna.

„Við ræddum við hann og hann bað okkur afsökunar. Leið verulega illa yfir þessu. Ég er nú bara þannig gerður að ég sá enga ástæðu til þess að hengja manninn út af þessu. Það gera allir mistök. Önnur ástæða er að ég stóð rétt fyrir ofan þetta og sá aðdragandann að þessu. Ekki bara myndirnar sem birtust. Ég veit því alveg hvað gerðist,“ segir Hilmar. Þá segir hann að mörgum hnöppum hafi verið að hneppa hjá félaginu um helgina, en fjórir flokkar þess urðu bikarmeistarar í Höllinni, og því hafi farist fyrir að senda út yfirlýsingu til að fordæma hegðun stuðningsmannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert