Hnefahöggið kært til lögreglu

Antti Kanervo og félagar í Stjörnunni fögnuðu bikarmeistaratitlinum vel á ...
Antti Kanervo og félagar í Stjörnunni fögnuðu bikarmeistaratitlinum vel á laugardaginn og þá fór allt friðsamlega fram í stúkunni. mbl.is/Eggert

Stuðningsmaður körfuknattleiksliðs Stjörnunnar hefur verið kærður til lögreglu eftir að upp úr sauð á milli stuðningsmanna Stjörnunnar og ÍR í undanúrslitum Geysisbikars karla í Laugardalshöll í síðustu viku.

Ljósmynd náðist af því þegar umræddur stuðningsmaður Stjörnunnar veitti stuðningsmanni ÍR hnefahögg í andlit og atvikið náðist einnig á myndband sem sjá má á vef RÚV.

Það var í höndum stjórnar körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar að ákveða hvort stuðningsmaðurinn fengi bann frá leikjum eða ekki og sú ákvörðun var tekin að veita honum aðeins áminningu. Hann fékk því að mæta á bikarúrslitaleikinn á laugardag þar sem Stjarnan fagnaði sigri.

Stjórn körfuknattleiksdeildar ÍR hefur nú upplýst að málið hafi verið kært til lögreglu. Telur hún rétt að tjá sig ekki frekar um málið á meðan það er til rannsóknar hjá yfirvöldum, að því er fram kemur á Twitter-síðu ÍR-inga.

mbl.is