Keflavík fór illa með KR í toppslag

Birna Valgerður Benónýsdóttir sækir að körfu KR í kvöld. Þorbjörg …
Birna Valgerður Benónýsdóttir sækir að körfu KR í kvöld. Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir er til varnar. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Í toppslag Dominos-deildar kvenna í körfubolta mættust í kvöld Keflavík og KR en fyrir leik voru liðin jöfn að stigum á toppnum, bæði með 30 stig. Mikilvægi leiksins var því gríðarlegt fyrir bæði lið því lið Vals er að koma á fljúgandi siglingu upp töfluna og enginn má tapa stigum.

Svo fór að Keflavík vann leikinn með nokkuð óvæntum yfirburðum 91:59 eftir að aðeins 1 stig hafði skilið liðin að í hálfleik.

Það var fyrst og síðast þriðji fjórðungur hjá Keflavík sem skilaði að stórum hluta þessum risasigri en þar skoraði Keflavík 27 stig gegn aðeins 10 stigum KR. Fyrr í vikunni varð það ljóst að Unnur Tara Jónsdóttir spilar ekki meira með KR í vetur, sökum hnémeiðsla og augljóst að þau meiðsli veiki lið KR en kannski ekki svo mikið eins og raun bar vitni í kvöld.

Keflavíkurliðið einfaldlega var töluvert betra í seinni hálfleik. Spilaði fína vörn og sóknarleikurinn á köflum óaðfinnanlegur þar sem boltinn gekk vel manna á milli. Birna V. Benónýsdóttir sem hefur kannski ekki spilað á pari í vetur virðist vera að lifna við núna seinni hluta móts og átti hún líkast til einn sinn besta leik í vetur í kvöld en hún skoraði 19 stig og tók 8 fráköst. 

Brittanny Dinkins leiddi Keflavík með 34 stig. Orla O'Reilly, byrjaði leikinn með látum fyrir KR og var komin með 18 stig í hálfleik en náði ekki að fylgja því eftir í þeim seinni og endaði leik með 25 stig.

Keflavíkurliðið, þrátt fyrir að vera á toppi deildarinnar, hefur náð að fljúga svolítið undir radar í allan vetur. Fæstir hafa trúað að liðið myndi halda toppsætinu og öll athygli hefur verið ýmist á spútnikliði KR og svo seinna meir á liði Vals eftir að Helena Sverrisdóttir kom heim. 

Þetta hefur augljóslega hentað Keflavík nokkuð vel. KR átti helling inni í þessum leik og þá sérstaklega í seinni hálfleik þar sem leikur liðsins hrundi með öllu. Óútskýranlegt nema þá bara að Keflavík var töluvert betur stemmt til körfuknattleiks þetta kvöldið. 

Keflavík - KR 91:59

Blue-höllin, Úrvalsdeild kvenna, 20. febrúar 2019.

Gangur leiksins: 2:0, 6:6, 12:8, 14:17, 18:19, 25:24, 31:30, 38:37, 44:39, 52:42, 60:46, 65:47, 68:48, 76:52, 83:57, 91:59.

Keflavík: Brittanny Dinkins 34/18 fráköst/8 stoðsendingar, Birna Valgerður Benónýsdóttir 19/8 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 13/9 fráköst, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 10/7 fráköst, Erna Hákonardóttir 7, Katla Rún Garðarsdóttir 4/5 fráköst, Irena Sól Jónsdóttir 2, Anna Ingunn Svansdóttir 2.

Fráköst: 39 í vörn, 10 í sókn.

KR: Orla O'Reilly 25/8 fráköst, Kiana Johnson 20/10 fráköst/6 stoðsendingar, Ástrós Lena Ægisdóttir 7/4 fráköst, Perla Jóhannsdóttir 5, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 2/5 fráköst.

Fráköst: 23 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Garðarsson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 117

Keflavík 91:59 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert