Ætlar að njóta leiksins í kvöld

Hlynur Bæringsson býr til svæði fyrir Martin Hermannsson í sigurleiknum ...
Hlynur Bæringsson býr til svæði fyrir Martin Hermannsson í sigurleiknum gegn Finnum fyrir ári. Antti Kanervo núverandi samherji Hlyns hjá Stjörnunni lendir á eftir Martin fyrir vikið. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta svolítið óraunverulegt enn þá,“ sagði landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson um þá tilhugsun að Hlynur Bæringsson og Jón Arnór Stefánsson hafi ákveðið að láta staðar numið með landsliðinu í körfuknattleik. 

Hlynur og Jón munu spila sinn síðasta landsleik þegar Ísland tekur á móti Portúgal í Laugardalshöllinni í kvöld klukkan 19:45. 

„Þeir hafa talað um þetta af og til í þrjú ár en aldrei látið verða af því að hætta. Þar af leiðandi trúi ég þessu eiginlega ekki,“ sagði Martin og hló en bætti við á alvarlegri nótum. 

„Auðvitað skilja þeir eftir sig rosalega stórt skarð sem þarf að fylla. Það segir sig bara sjálft. Það mun taka tíma en ég er bjartsýnn. Til að byrja með ætla ég að njóta þess að spila með þessum stjörnum gegn Portúgal. Þetta voru gaurarnir sem maður leit upp til þegar maður var að byrja í körfubolta og ég fylgdist með þeim upp alla yngri flokka. Ég man vel eftir því þegar ég mætti á mína fyrstu landsliðsæfingu með þeim og spilaði minn fyrsta landsleik með þeim. Það var bara heiður. Maður hafði æft öll þessi ár til þess að fá að spila með þessum stjörnum í landsliðinu. Það verður skrítið að hafa þá ekki með í leikjum í framtíðinni. Þetta er önnur tilhugsun heldur en þegar menn missa af einum leik. En þetta er eitthvað sem þarf að gerast. Þeir eru því miður ekki eilífir í þessu,“ sagði Martin Hermannsson í samtali við mbl.is. 

Ítarlega er fjallað um þá Hlyn og Jón Arnór í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Jóna Arnór Stefánsson og Martin Hermannsson eftir sigur á Tékkum ...
Jóna Arnór Stefánsson og Martin Hermannsson eftir sigur á Tékkum í Laugardalshöllinni fyrir ári. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is