Höfðingjar á útleið

Jón Arnór Stefánsson og Hlynur Bæringsson ætla að láta gott ...
Jón Arnór Stefánsson og Hlynur Bæringsson ætla að láta gott heita. Þeir fóru með Íslandi á tvö stórmót. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miklir höfðingjar leika í síðasta sinn í kvöld í landsliðstreyjunni þegar Ísland mætir Portúgal í forkeppni EM karla í körfuknattleik í Laugardalshöllinni klukkan 19:45. Hlynur Bæringsson og Jón Arnór Stefánsson hafa tilkynnt að leikurinn verði þeirra síðasti með A-landsliðinu. Hlynur leikur sinn 125. A-landsleik og þannig hittist á að Jón leikur sinn 100. landsleik.

Báðir eru þeir fæddir árið 1982 og báðir léku sinn fyrsta A-landsleik árið 2000. Hlynur er sjötti leikjahæsti landsliðsmaðurinn frá upphafi og Jón er fjórtándi á listanum. Voru þeir í lykilhlutverkum þegar landsliðið náði tímamótaárangri og komst á stórmót í íþróttinni í fyrsta skipti á EM í Berlín 2015.

Fyrir þá sem fylgst hafa með íslenska landsliðinu þá er öllum augljóst um hvers lags vatnaskil hér er að ræða. Hlynur hefur árum saman verið fyrirliði og leiðtogi liðsins. Þótt hann sé ekki nema 200 cm, sem ekki þykir mikið í miðherjastöðunni í landsleikjum, þá tókst honum, stundum á nánast óskiljanlegan hátt, að hafa betur gegn 215 cm háum leikmönnum sem léku með stórliðum í Evrópu. Jón Arnór hefur náð lengra en nokkur annar Íslendingur í atvinnumennskunni í Evrópu og var jafnbesti leikmaður landsliðsins bæði í vörn og sókn um langa hríð.

Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins þar sem rætt er við höfðingjana tvo og fyrrverandi þjálfara þeirra.

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »