Jón Arnór stigahæstur í síðasta leiknum

Ísland sigraði Portúgal 91:67 í forkeppni Evrópumóts karla í körfubolta í Laugardalshöll í kvöld. Hlynur Bæringsson og Jón Arnór Stefánsson léku sinn síðasta landsleik. Hlynur tók flest fráköst og Jón Arnór skoraði flest stig.

Portúgal og Ísland eru jöfn í öðru sæti C-riðilsins með fjögur stig en Belgía náði efsta sæti riðilsins. 

Jón Arnór Stefánsson var stigahæstur í sínum síðasta landsleik en hann skoraði 17 stig. Jón setti niður fimm þriggja stiga skot og brenndi aðeins af einu slíku. Hlynur Bæringsson fyrirliði skoraði 7 stig, tók 12 fráköst og stal boltanum tvívegis. 

Hlynur og Jón voru heiðraðir fyrir sitt framlag áður en leikurinn hófst og þá sendi forseti Íslands þeim kveðju en hann er staddur erlendis. Jón Arnór lék sinn 100. A-landsleik í kvöld og Hlynur landsleik númer 125. Er hann sá sjötti leikjahæsti frá upphafi. 

Margir í íslenska liðinu léku vel í kvöld. Haukur Helgi Pálsson skoraði 15 stig og virtist lítið hafa fyrir hlutunum. Hann hitti úr fyrstu þremur þriggja stiga skotum sínum í fyrsta leikhluta. Martin Hermannsson var drjúgur og Tryggvi Snær Hlinason einnig. 

Dagur Kár Jónsson lék sinn fyrsta A-landsleik en faðir hans Jón Kr. Gíslason er þriðji leikjahæsti maður landsliðsins frá upphafi. 

Ísland á einn leik eftir í forkeppninni, gegn Belgíu ytra á sunnudaginn. Þá verða Hlynur og Jón hættir en auk þeirra munu Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermannsson væntanlega ekki spila þann leik vegna anna hjá sínum félagsliðum í Þýskalandi og Frakklandi. 

Ísland: Jón Arnór Stefánsson 17/2 stoðsendingar, Haukur Helgi Pálsson 15/7 fráköst/4 stoðsendingar, Martin Hermannsson 13/8 stoðsendingar, Tryggvi Snær Hlinason 12/3 fráköst/1 stoðsending, Kristófer Acox 11/2 fráköst/1 stoðsending, Elvar Már Friðriksson 9/3 fráköst/2 stoðsendingar, Hlynur Bæringsson 7/12/1 stoðsending fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 7/6 stoðsendingar/2 fráköst, Hjálmar Stefánsson 3 fráköst/1 stoðsending, Sigtryggur Arnar Björnsson 1 stoðsending, Gunnar Ólafsson, Dagur Kár Jónsson.

Portúgal: Miguel Queiroz 13, Tomas Barroso 13, Miguel Cardoso 12, Joao Grosso 8, Ricardo Monteiro 5, Pedro Catarino 5, Pedro Pinto 4, Goncalo Delgado 3, Stefan Djukic 2, Henrique Piedade 2.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Ísland 91:67 Portúgal opna loka
99. mín. skorar
mbl.is