Mjög skrítið að vera orðinn elstur

Hörður Axel Vilhjálmsson í leiknum í kvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Landsliðsmaðurinn Hörður Axel Vilhjálmsson var kátur eftir 91:67-sigur á Portúgal í Laugardalshöllinni í forkeppni EM í körfubolta í kvöld. Íslenska liðið spilaði afar vel í kveðjuleik Jóns Arnórs Stefánssonar og Hlyns Bæringssonar. 

„Þetta var sannfærandi sigur. Við vorum þrusuflottir fannst mér. Þessi leikur skipti ekki eins miklu máli og við hefðum viljað, en það er æðislegt að fá að kveðja bæði Jón og Hlyn með þessum hætti.

Við töluðum um það að kveðja þá á eins jákvæðum nótum og hægt væri. Það skipti okkur miklu máli að vinna í dag og þakka fyrir okkur og leyfa þeim að þakka fyrir sig með sigri.“

Þrátt fyrir að vera aðeins þrítugur, er Hörður Axel nú orðinn aldursforsetinn í liðinu. „Það er mjög skrítið að vera orðinn elstur í liðinu. Craig [Pedersen, landsliðsþjálfari] hlýtur að geta fundið einhvern sem er eldri en ég, svo ég verði ekki elstur alveg strax,“ sagði Hörður og glotti.

Andinn í landsliðinu alltaf verið geggjaður

Hann á sjálfur nóg eftir í landsliðinu, sem hann segir skemmtilegasta liðið til að spila með. 

„Mér finnst þetta æðislegt. Það er rosalega gaman að spila með landsliðinu og sérstaklega þar sem margir af mínum bestu vinum eru í liðinu. Þetta er öðruvísi en að spila úti í atvinnumennsku, andrúmsloftið er betra í landsliðinu. Andinn í liðinu hefur alltaf verið geggjaður og þetta er skemmtilegasti tíminn sem maður upplifir í körfuboltanum.“

Hörður hefur spilað fleiri landsleiki með Jóni og Hlyni en flestir. Hann horfir á eftir þeim með söknuði. 

„Þeir eru báðir magnaðir, bæði á vellinum og utan hans. Þetta eru flottir karakterar sem smita út í hópinn. Ég þarf ekkert að tala um gæðin á þessum leikmönnum. Við munum sakna þeirra og ég er búinn að reyna að sannfæra þá um að halda áfram, bæði því við viljum hafa þá í liðinu og svo líka svo ég verði ekki elstur,“ sagði Hörður Axel og brosti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert