Fjórir nýir fyrir leikinn við Belga

Haukur Helgi Pálsson hefur glímt við meiðsli í ökkla sem ...
Haukur Helgi Pálsson hefur glímt við meiðsli í ökkla sem aftra honum frá því að spila gegn Belgíu. mbl.is/Hari

Jón Arnór Stefánsson og Hlynur Bæringsson léku í gærkvöld sinn síðasta landsleik í körfubolta og tveir til viðbótar detta út úr landsliðshópnum fyrir leikinn við Belgíu ytra á sunnudag sem er jafnframt síðasti leikur Íslands í riðlinum í forkeppni Evrópumótsins.

Jón, Hlynur og Haukur Helgi Pálsson, sem allir voru í byrjunarliði gegn Portúgal í gær, verða ekki með á sunnudaginn. Það var raunar ljóst fyrir nokkru en Haukur hefur glímt við meiðsli og fer til síns félags í Frakklandi þar sem hann fer í sprautumeðferð vegna meiðsla í ökkla.

Auk þessara þriggja dettur Sigtryggur Arnar Björnsson út úr hópnum sem lék í gærkvöld. Inn koma þeir Haukur Óskarsson úr Haukum, Collin Pryor úr Stjörnunni og þeir Maciek Baginski og Kristinn Pálsson úr Njarðvík.

mbl.is