KR sigraði í Seljaskóla

Matthías Orri Sigurðarson með boltann en Kristófer Acox og Björn …
Matthías Orri Sigurðarson með boltann en Kristófer Acox og Björn Kristjánsson eru til varnar. mbl.is/Árni Sæberg

KR hafði betur 80:72 þegar ÍR og KR mættust í næstsíðustu umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í Seljaskóla í kvöld. KR er í 5. sæti deildarinnar en ÍR í 8. sæti. 

KR er nú tveimur stigum á eftir Tindastóli og Keflavík sem eru í 3. og 4. sæti. ÍR er í 8. sæti og öruggt með sæti í úrslitakeppninni. Liðið er með jafn mörg stig og Grindavík sem er í 7. sæti. ÍR á því enn möguleika á að hækka sig um eitt sæti í lokaumferðinni. 

KR hafði frumkvæðið í leiknum en stakk þó aldrei af. KR hafði eins stig forystu að leiknum fyrsta leikhluta og var yfir 43:40 að loknum fyrri hálfleik. Fyrir síðasta leikhlutann var staðan 67:64 og því var spennan yfirleitt til staðar. 

Þrír fyrstu leikhlutarnir voru býsna skemmtilegir en skemmtanagildið var ekki eins mikið í þeim fjórða. Þá gerðu liðin mörg mistök og ÍR-ingum gekk afar illa að skora. KR náði því smám saman betra forskoti og höfðu meistararnir sigurinn nokkurn veginn í hendi sér á síðustu tveimur til þremur mínútunum. 

Michele Di Nunno dró vagninn hjá KR og ÍR-ingar áttu í erifðleikum með hann. Skoraði bakvörðurinn 28 stig og spilaði auk þess góða vörn gegn Matthíasi Orra Sigurðarsyni á köflum. Matthías átti fínan leik í fyrri hálfleik en var ekki eins beittur í síðari hálfleik. Skoraði hann 15 stig fyrir ÍR en stigahæstur var Gerald Robinson með 19 stig. Hann skoraði öll sín stig í fyrstu þremur leikhlutunum og hefði getað lagt meira af mörkum í síðasta leikhlutanum. Kristófer Acox var mjög drjúgur hjá KR með 21 stig og 17 fráköst. 

ÍR - KR 72:80

Hertz Hellirinn - Seljaskóli, úrvalsdeild karla, 11. mars 2019.

Gangur leiksins: 4:4, 10:14, 17:16, 23:24, 25:28, 30:34, 33:38, 40:43, 47:50, 51:58, 59:62, 64:67, 64:69, 64:71, 68:74, 72:80.

ÍR: Gerald Robinson 19/9 fráköst, Kevin Capers 17, Matthías Orri Sigurðarson 15/11 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 10/10 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 4, Sæþór Elmar Kristjánsson 4, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 3.

Fráköst: 20 í vörn, 16 í sókn.

KR: Michele Christopher Di Nunno 28, Kristófer Acox 21/17 fráköst/5 stolnir, Helgi Már Magnússon 7, Julian Boyd 7/4 fráköst, Pavel Ermolinskij 5/6 fráköst, Emil Barja 4, Finnur Atli Magnússon 4/4 fráköst, Björn Kristjánsson 2, Orri Hilmarsson 2.

Fráköst: 25 í vörn, 14 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Ísak Ernir Kristinsson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 405

ÍR 72:80 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert