„Viðurkenning fyrir félagið“

„Núna fer alvaran að byrja. Við erum með heimavallarréttinn, það er flott,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, pollrólegur eftir að liðið varð deildarmeistari karla í körfubolta í fyrsta sinn í kvöld.

Með því að enda í efsta sæti deildarinnar er Stjarnan örugg um heimavallarrétt í úrslitakeppninni sem hefst eftir viku en þar mætir Stjarnan liði Grindavíkur.

„Það á vonandi eftir að gefa okkur eitthvað. Við erum búnir að vera fínir heima og vonandi heldur það áfram í þessari úrslitakeppni. Grindavík er með hörkulið. Þetta verður erfið sería. Þeir sýndu það þegar við spiluðum við þá í Grindavík að við þurfum að vera á tánum, það er alveg á hreinu,“ sagði Arnar, sem var fremur stuttorður og ekki æstur í að gera mikið úr deildarmeistaratitlinum.

„Þetta er frábært fyrir félagið. Fyrsta skiptið í sögunni og viðurkenning fyrir félagið,“ sagði Arnar sem í síðasta mánuði stýrði Stjörnunni til bikarmeistaratitils og er greinilega staðráðinn í að fullkomna þrennuna nú í vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert