Ekkert gengur hjá Lakers

LeBron James skoraði 29 stig fyrir Lakers í nótt.
LeBron James skoraði 29 stig fyrir Lakers í nótt. AFP

Það gengur hvorki né rekur hjá gamla stórveldinu Los Angeles Lakers en liðið tapaði í nótt fyrir Toronto Raptors 111:98.

Lakers hefur aðeins unnið einn leik frá því 27. febrúar og var tapið í nótt það 37. í röðinni hjá liðinu á tímabilinu. Möguleikar liðsins á að komast í úrslitakeppnina eru orðnir sáralitlir. Lakers er í 11. sæti með 31 sigurleik en LA Clippers situr í áttunda sæti með 39 sigurleiki. Það bil þyrfti Lakers að brúa í þeim 14 leikjum sem liðið á eftir, sem er nánast vonlaust.

LeBron James var stigahæstur í liði Lakers með 29 stig en hjá Toronto var Kawhi Leonard atkvæðamestur með 25 stig og Normal Powell 20.

Wesley Matthews tryggði Indiana Pacers sigurinn gegn Oklahoma City Thunder með því að skora sigurkörfuna tveimur sekúndum fyrir leikslok og Indiana fagnaði sigri 108:106.

Domantas Sabonis skoraði 26 stig fyrir Indiana gegn sínum gömlu félögum. Paul George skoraði 36 stig fyrir Oklahoma og Russell Westbrook náði þrefaldri tvennu en hann skoraði 19 stig, tók 14 fráköst og gaf 11 stoðsendingar. Westbrook átti möguleika á að tryggja sínum mönnum sigurinn en þriggja stiga skot hans á lokasekúndunni geigaði.

Kyrie Irving var með þrefaldra tvennu fyrir Boston Celtics sem bar sigurorð af Sacramento Kings 126:120. Irwing skoraði 31 stig, tók 10 fráköst og gaf 12 stoðsendingar.

Úrslitin í nótt:

Denver - Dallas 100:99
Toronto - LA Lakers 111:98
Boston - Sacramento 126:120
Indiana - Oklahoma 108:106
Orlando - Cleveland 120:91
Utah - Minnesota 120:100

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert