Mistökunum fækkar

Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur leikið vel með ÍR.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur leikið vel með ÍR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísfirðingurinn Sigurður Gunnar Þorsteinsson er leikmaður marsmánaðar hjá Morgunblaðpinu fyrir frammistöðu sína með ÍR-ingum í fjórum síðustu umferðum Dominos-deildar karla. Breiðhyltingar luku deildakeppninni á góðum nótum með útisigri gegn fyrrverandi samherjum Sigurðar í Grindavík og tryggðu sér 7. sætið.

„Jú, það var mjög mikilvægt að ná í góðan sigur og fá meðbyr inn í úrslitakeppnina. Mér finnst ákveðnir hlutir hafa lagast hjá okkur síðustu vikurnar og við erum á uppleið þótt síðasti leikur flokkist ekki undir að vera fallegur. En mistökunum hefur fækkað og við gætum verið að hitta á réttan tíma til að toppa,“ sagði Sigurður þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær.

Kann vel við sig hjá ÍR

Sigurður hefur umtalsverða reynslu úr deildinni og hefur unnið titla bæði með Keflavík og Grindavík. Hann ákvað síðasta sumar að ganga til liðs við ÍR. „Ég kann mjög vel við mig hjá ÍR. Tímabilið hefur gengið brösuglega hjá okkur, meðal annars vegna meiðsla. Ég er ekki viss um að liðsandinn væri jafn góður og hann er ef við hefðum ekki lent í þessum skakkaföllum og værum í 7. sæti. Það er viss þolinmæði gagnvart okkar stöðu vegna þess að við höfum aldrei verið með fullt lið allt tímabilið og það hefur áhrif á gengi liðsins. Við viljum meira og okkur finnst að við gætum verið ofar í töflunni ef við hefðum verið með fullt lið allt tímabilið. Við spiluðum til dæmis leik fyrir áramót þar sem við vorum ekki með neinn leikstjórnanda. Á hinn bóginn hafa aðrir fengið tækifæri og menn hafa nýtt sér það. Það er flott fyrir félagið að ungu strákarnir fái tækifæri til að sýna sig og sanna,“ benti Sigurður á en Matthías Orri Sigurðarson, einn atkvæðamesti leikmaður deildarinnar síðustu árin, var ekki með fyrri hluta tímabilsins. Nú er hann kominn á ferðina og er kominn í leikæfingu. „Eftir að Matti kom til baka er betra skipulag í sókninni hjá okkur. Hann hefur spilað það lengi sem leikstjórnandi í deildinni að hann veit hvað þarf að gera. Hann á það alveg inni að talað sé um þegar hans nýtur ekki við.“

Sjá viðtalið í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og þar má sjá úrvalslið marsmánaðar hjá Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert