Martin hetjan og er sigri frá úrslitaleik

Martin Hermannsson er lykilmaður í liði Alba Berlín.
Martin Hermannsson er lykilmaður í liði Alba Berlín. Ljósmynd/@albaberlin

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, er aðeins einum sigri frá því að spila til úrslita í Evrópubikarnum með liði sínu Alba Berlín eftir magnaðan sigur í fyrsta leik undanúrslita í kvöld, 102:97.

Alba fékk þá Morabanc Andorra í heimsókn og voru Martin og félagar yfir í hálfleik, 59:43. Gestirnir náðu að klóra í bakkann eftir hlé, en staðan fyrir fjórða og síðasta leikhluta var 85:73 fyrir Alba.

Martin og félagar máttu ekkert slaka á í síðasta leikhlutanum þar sem gestirnir gáfu enn meira í og voru lokamínúturnar æsispennandi. Þegar um mínúta var eftir munaði aðeins tveimur stigum á liðunum, 99:97, en þá tók Martin til sinna ráða.

Hann skoraði og breytti stöðunni í 101:97, auk þess sem brotið var á honum og skoraði hann einnig úr víti. Staðan 102:97. Þessi kafli Martins tryggði Alba sigurinn og lokatölurnar 102:97.

Martin var sem fyrr í stóru hlutverki hjá Alba og var á meðal þeirra sem spiluðu mest í leiknum. Hann skoraði 10 stig, gaf sjö stoðsendingar og tók eitt frákast.

Alba Berlín er nú aðeins einum sigri frá því að komast í úrslitaleikinn, en vinna þarf tvo leiki í einvíginu til þess að spila til úrslita.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Valencia og UNICS Kazan og þar er Valencia komið í 1:0 eftir sigur í fyrsta leiknum í kvöld, 69:64.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert