Ekki sérstakt áhyggjuefni

Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, hvetur sínar stúlkur áfram á Hlíðarenda …
Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, hvetur sínar stúlkur áfram á Hlíðarenda í kvöld. mbl.is/Hari

„Við gerðum of mörg mistök og á móti svona góðu liði þá er þér refsað grimmilega fyrir öll mistök,“ sagði Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir 80:68-tap liðsins gegn Val í toppslag Dominos-deildar kvenna í körfuknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Við töpum sautján boltum í leiknum og til að toppa það þá var Valsliðið með 46% þriggja stiga nýtingu sem er í raun alveg fáránlegt en þær hafa sýnt það margoft í vetur að þær hitta mjög vel fyrir utan og okkur tókst ekki að loka nægilega vel á þær. Brittanny hefur verið að bera sóknarleikinn uppi í vetur, líkt og í kvöld, og svo hafa aðrir leikmenn fylgt með og það er ekkert sérstakt áhyggjuefni. Það segir sig sjálft að við þurfum framlag frá fleirum í sókninni, gegn sterkari liðum, en okkur til varnar þá hefur Sara mætt á eina æfingu með okkur í vetur. Við erum nánast að spila sama leikkerfið allan tímann en ég fer ekki af því að það var margt jákvætt í okkar leik í kvöld.“

Þjálfari Keflvíkinga telur að innkoma Söru Rúnar Hinriksdóttur muni breyta miklu fyrir liðið en hún var að snúa aftur í úrvalsdeild kvenna í kvöld eftir fjögurra ára nám í Cancius-skól­an­um í Banda­ríkj­un­um.

„Sara mun breyta þessu liði mikið. Emilía Ósk Gunnarsdóttir og Þóranna Kika Hodge-Karr eru báðar að koma til baka eftir erfið meiðsli og þær eru alltaf að koma betur og betur inn í þetta hjá okkur. Það má ekki gleymast að við höfum verið í fyrsta eða öðru sæti deildarinnar í allan vetur, án þeirra, og núna þurfum við að koma þeim enn þá betur inn í okkar leik fyrir lokasprettinn.“

Jón Guðmundsson telur að baráttan um deildarmeistaratitilinn sé svo gott sem búin.

„Valur er búið að vinna deildarmeistaratitilinn, svo einfalt er það. Þær eru tveimur stigum fyrir ofan okkur þegar tveir leikir eru eftir af tímabilinu og þær munu ekki tapa síðustu leikjunum sínum,“ sagði Jón Guðmundsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert