Valskonur með örlögin í höndum sér

Helena Sverrisdóttir með boltann í kvöld.
Helena Sverrisdóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Hari

Valur er kominn með aðra hönd á deildarmeistaratitilinn í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik eftir 12 stiga sigur gegn Keflavík í toppslag 26. umferðar deildarinnar í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld en leiknum lauk með 80:68-sigri Vals.

Keflavík byrjaði leikinn betur og leiddi með einu stig, 7;6, þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum en þá vaknaði Valsliðið og skoraði 12 stig í röð. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 22:13, Val í vil, og þær héldu áfram að hamra járnið í upphafi annars leikhluta og var munurinn á liðunum 12 stig þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá vaknaði Brittanny Dinkins í liði Keflavíkur en hún setti niður þrjár þriggja stiga körfur í röð og staðan í hálfleik 44:39, Val í vil.

Keflavík byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og komst yfir í leiknum, í fyrsta sinn síðan í byrjun leiks, um miðjan þriðja leikhluta. Sú forysta entist ekki lengi því Valsliðið setti þá í annan gír á nýjan leik og leiddi með níu stigum að loknum þriðja leikhluta, 67:58. Valskonur byrjuðu fjórða leikhluta af miklum krafti og náðu snemma fimmtán stiga forskoti. Það forskot tókst Keflvíkingum ekki að vinna upp og Valskonur fögnuðu að lokum þægilegum sigri.

Valsliðið hefur oft spilað betur en í kvöld en það kom ekki að sök. Þær voru með leikinn í höndum sér, nánast allan tímann, en liðið var ógnarsterkt fyrir utan þriggja stiga línuna og var með 46% nýtingu fyrir utan. Helena Sverrisdóttir var öflug í Valsliðinu sem fyrr með 20 stig, 11 fráköst og níu stoðsendingar og þá átti Heather Butler einnig góðan leik í liði Vals með 24 stig og sjö fráköst.

Sara Rún Hinriksdóttir var ljósi punkturinn í liði Keflavíkur í kvöld. Hún skoraði 23 stig, tók 10 fráköst og gaf eina stoðsendingu í endurkomu sinni til liðsins en hún spilaði síðast í úrvalsdeild kvenna fyrir fjórum árum síðan. Sara hefur verið við nám í Cancius-skólanum í Bandaríkjunum en hefur nú lokið námi. Brittanny Dinkins var einnig atkvæðamikil með 25 stig en aðrir leikmenn liðsins skoruðu sex stig eða minna. Keflavík þarf framlag frá miklu fleiri leikmönnum en þeim tveimur ef þær ætla sér að berjast um Íslandsmeistaratitilinn í vor.

Valur er nú með tveggja stiga forskot á toppi Dominos-deildarinnar með 40 stig þegar tveir leikir eru eftir af tímabilinu og það verður að teljast nánast öruggt að liðið lyfti deildarmeistaratitlinum í lok mars. Keflavík er í öðru sætinu með 38 stig, fjórum stigum meira en Stjarnan, en liðið mætir Breiðablik og KR í lokaumferðunum.

Valur 80:68 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert