57 stig hjá Harden

James Harden skoraði 57 stig.
James Harden skoraði 57 stig. AFP

James Harden skoraði 57 stig í nótt fyrir Houston Rockets en það dugði ekki til sigurs gegn Memphis Grizzlies sem sigraði 126:125 eftir framlengdan leik. 28 stig gerði Harden í fjórða leikhluta og framlengingu en hann hefur átt ótrúlegt tímabil í vetur. 

Lið Houston er óútreiknanlegt og tapaði nú fyrir liði sem er með mun verri árangur í vetur. Litháinn Jonas Valanciunas skoraði 33 stig fyrir Memphis sem er persónulegt met hjá honum í deildinni. Hann tryggði sigurinn á vítalínunni þegar 0,1 sekúnda var eftir af leiknum. Harden hafði komið leiknum í framlengingu með því að setja niður þrjú víti í lok venjulegs leiktíma en Houston komst aldrei yfir í leiknum. 

Sigurgöngu San Antonio Spurs lauk í nótt á heimavelli gegn Miami Heat. Þann leik þurfti einnig að framlengja og hafði Miami betur 110:105 með slóvenska Evrópumeistarann Goran Dragic sem besta mann. San Antonio hafði unnið níu leiki í röð og ellefu í röð á heimavelli. 

Úrslit: 

Cleveland - Milwaukee 107:102

Orlando - New Orleans 119:96

Philadelphia - Boston 118:115

New York - Utah 116:137

Chicago - Washington 126:120

Memphis - Houston 126:125

San Antonio - Miami 105:110

Oklahoma - Toronto 114:123

Portland - Dallas 126:118

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert