Mun senda inn kvörtun til KKÍ

Unnur Tara Jónsdóttir í leik gegn Breiðabliki.
Unnur Tara Jónsdóttir í leik gegn Breiðabliki. mbl.is/Hari

Unnur Tara Jónsdóttir, landsliðskona í körfuknattleik, varð fyrir óskemmtilegri reynslu þegar hún sneri aftur á körfuboltavöllinn með KR gegn Breiðabliki í Dominos-deild kvenna í gær. Hún segist hafa mátt þola mikinn dónaskap af hálfu þjálfara Breiðabliks sem beindi spjótum sínum að Unni um leið og hún kom inn á. 

Þegar mbl.is hafði samband við Unni staðfesti hún að framkoma þjálfarans, Antonio d'Albero, hafi verið mjög óviðeigandi og stuðandi. Unnur kærði sig ekki um að fara út í atburðarásina í smáatriðum en sagðist ekki hafa kynnst slíku áður á sínum ferli. 

„Ég hef aldrei lent í þessu áður og skrifaði því aðeins um þetta á Facebook í gærkvöldi vegna þess að ég vissi ekki hvernig ég ætti að koma þessu á framfæri. Svívirðingar þjálfarans byrjuðu um hálfri mínútu eftir að ég kom inn á og héldu áfram í dágóða stund. Hann lét ýmislegt flakka sem ég nefndi ekki á Facebook. Þetta var virkilega ófagmannlegt en var auk þess mjög ógnandi. Mér fannst þetta óþægilegt og þá sérstaklega þegar ég þurfti að vera nálægt varamannabekk Breiðabliks. Þetta stuðaði mig,“ sagði Unnur Tara þegar mbl.is bar þetta undir hana í dag. Hún segist ætla að senda inn kvörtun til KKÍ.

Spilar með slitið krossband

Unnur Tara er með slitið fremra krossband í hné og var talið að hún yrði ekki meira með í vetur. Hún skilaði 14 stigum gegn Breiðabliki og stefnir að því að ljúka keppnistímabilinu. 

„Það var allt í lagi að spila í gær varðandi hnéið en það vantaði aðeins upp á þolið því ég hafði ekki spilað í margar vikur. Ég held að Benni [Benedikt Guðmundsson þjálfari KR] hafi orðið svolítið svartsýnn þegar hann heyrði að krossbandið væri slitið en ég var búin að segja honum að ég myndi koma aftur á þessu tímabili. Þar sem mig langaði ekki að taka mér frí frá körfuboltanum á þessum tímapunkti þá ráðlagði bæklunarlæknirinn mér að láta reyna á þetta. Ég hef auðvitað verið dugleg að styrkja mig í ræktinni og vinna í jafnvæginu. Auk þess er ég með mikla spelku sem heldur vel við. Ég reikna með því að ljúka tímabilinu en fer örugglega í aðgerð einhvern tíma síðar svo maður geti farið á skíði í framtíðinni,“ sagði Unnur Tara og hló en hún starfar sjálf sem læknir og hefur því góða þekkingu á mannslíkamanum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert