Flautukafa Ólafs tryggði Grindavík sigur

Ólafur Ólafsson tryggði Grindavík sigurinn.
Ólafur Ólafsson tryggði Grindavík sigurinn. mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík jafnaði metin í 1:1 í einvígi sínu við deildar- og bikarmeistara Stjörnunnar í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. Grindavík vann þá óvæntan sigur á heimavelli 84:82. Ólafur Ólafsson tryggði sigur Grindavíkur með flautukörfu í lok leiks. 

Stjarnan skoraði fimm fyrstu stig leiksins og gekk Grindvíkingum bölvanlega í sókninni framan af. Eftir því sem leið á leikhlutann hitnuðu Grindvíkingar hins vegar og með glæsilegri spilamennsku tókst þeim að snúa leiknum sér í vil. Jordy Kuiper var illviðráðanlegur undir körfunni og Ólafur Ólafsson byrjaði að hitta vel.

Staðan eftir fyrsta leikhluta var því 24:18, Grindavík í vil. Grindavík byrjaði af miklum krafti í öðrum leikhluta og skoraði 13 fyrstu stig hans og breyttu stöðunni í 37:18, sem síðan varð 40:20. Mun meiri barátta var í liði Grindavíkur og stemningin í stúkunni mikil. Stjarnan sótti aðeins að heimamönnum í lok leikhlutans en staðan í hálfleik var 48:30, Grindavík í vil. 

Stjörnumenn reyndu hvað þeir gátu til að minnka muninn í þriðja leikhluta, en Grindvíkingar svöruðu öllu sem Stjarnan reyndi og var munurinn í kringum 20 stig stærstan hluta leikhlutans. Stjarnan sótti aðeins að heimamönnum í lok leikhlutans, en staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 67:52, Grindavík í vil. 

Stjörnumenn minnkuðu muninn í 13 stig um miðjan fjórða leikhluta, 71:58, og svo í fjögur stig þegar tæp mínúta var eftir var eftir, 82:78. Brandon Rozzell skoraði úr þriggja stiga körfu og fékk víti að auki 12 sekúndum fyrir leikslok. Hann skoraði úr vítinu og jafnaði í 82:82. Ólafur Ólafsson átti hins vegar lokaorðið og tryggði Grindavík sætan sigur. 

Grindavík - Stjarnan 84:82

Mustad-höllin, Úrvalsdeild karla, 24. mars 2019.

Gangur leiksins:: 0:3, 5:11, 15:13, 24:15, 29:18, 40:20, 42:26, 48:32, 53:35, 58:41, 65:46, 67:53, 69:55, 74:58, 77:67, 84:82.

Grindavík: Sigtryggur Arnar Björnsson 26/5 fráköst, Jordy Kuiper 24/11 fráköst, Ólafur Ólafsson 14/12 fráköst/5 stoðsendingar, Lewis Clinch Jr. 11/5 stoðsendingar, Ingvi Þór Guðmundsson 5/5 fráköst/7 stoðsendingar, Johann Arni Olafsson 2, Kristófer Breki Gylfason 2.

Fráköst: 31 í vörn, 7 í sókn.

Stjarnan: Antti Kanervo 20/5 stoðsendingar, Hlynur Elías Bæringsson 20/12 fráköst, Brandon Rozzell 13/9 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 12/4 fráköst/9 stoðsendingar, Collin Anthony Pryor 10, Tómas Þórður Hilmarsson 4/5 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 3.

Fráköst: 26 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Einar Þór Skarphéðinsson.

Áhorfendur: 453

Grindavík 84:82 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert