Njarðvík stakk af í Breiðholtinu

Hákon Örn Hjálmarsson sækir að körfu Njarðvíkinga í kvöld.
Hákon Örn Hjálmarsson sækir að körfu Njarðvíkinga í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Njarðvíkingar unnu afar sannfærandi 85:70 sigur á ÍR í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts karla í körfuknattleik og eru þeir því 2:0 yfir í einvíginu samtals. Þeir geta því tryggt sér sæti í undanúrslitunum með því að hafa betur í þriðja leiknum sem fer fram á miðvikudaginn.

ÍR-ingar voru án hins öfluga Kevin Capers sem tók út leikbann í kvöld og það munaði svo sannarlega um hann. Heimamenn treystu mikið á Sigurð Gunnar Þorsteinsson í sóknaraðgerðum sínum framan af en þótt hann hafi staðið sig með ágætum var skotnýting ÍR-inga slök og gestirnir tóku frumkvæðið í byrjun leiks. Jeb Ivey var skærastur framan af og skorað tíu stig fyrir leikhlé en stigaskorun dreifðist nokkuð vel á milli leikmanna Njarðvíkur.

Gestirnir unnu fyrsta leikhlutann 18:10 en fengu að hafa meira fyrir hlutunum í þeim næsta sem fór 23:22 fyrir Njarðvíkinga, staðan 41:32 í hálfleik. Ólafur Helgi Jónsson var með níu stig fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik en Hákon Örn Hjálmarsson og Gerald Robinson voru báðir með tíu stig fyrir ÍR.

Það voru svo Njarðvíkingar sem héldu áfram að eflast eftir hlé á meðan lánlausir heimamenn fóru ítrekað illa með fín skotfæri. Þetta var hreinlega eitt af þessum kvöldum hjá ÍR þar sem fátt gekk upp en þeir áttu þó ágætt áhlaup í fjórða leikhlutanum, minnkuðu muninn í átta stig, en það reyndist bara of lítið og of seint.

Gerald Robinson var stigahæstur allra með 25 stig en Maciek Stanislav Baginski var honum næstur með 21 stig fyrir Njarðvíkinga.

ÍR 72:85 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is