Sá boltann skoppa mjúklega af hringnum

Ólafur Ólafsson var hetja Grindavíkur.
Ólafur Ólafsson var hetja Grindavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, var hetja liðsins í 84:82-sigri á Stjörnunni í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld. Ólafur skoraði sigurkörfuna í þann mund sem leikurinn kláraðist. 

„Mér leið vel. Við Arnar vorum að leika okkur í þessu á æfingu í gær. Mér leið nokkuð vel og um leið og ég sá að boltinn skoppaði mjúklega af hringnum, fékk ég góða tilfinningu um að hann væri að fara ofan í,“ sagði Ólafur um sigurkörfu sína. 

Grindavík náði mest 20 stiga forskoti í leiknum, en Stjörnunni tókst samt sem áður að jafna í leikinn. Ólafur var heilt yfir ánægður með spilamennsku Grindavíkur í kvöld. 

„Við vorum að spila við hörkulið. Mér fannst við halda vel út eftir að við byrjuðum frábærlega. Þeir hertu vörnina aðeins í seinni hálfleik og þá bökkuðum við aðeins, en svo fórum við að láta boltann ganga og láta hann vinna aðeins fyrir okkur og Arnar var stórkostlegur og hitti úr mikilvægum skotum. Við áttum skilið að vinna í dag.

Við vissum eftir leikinn í Garðabæ að við eigum helling í þetta lið, þótt þeir séu með dýpri bekk en við. Við jöfnuðum í 1:1 og í raun er 0:0 aftur og við verðum tilbúnir á miðvikudaginn næst,“ sagði Ólafur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert