Doði deildakeppninnar horfinn

Jón Arnór Stefánsson KR og Hörður Axel Vilhjálmsson Keflavík eru …
Jón Arnór Stefánsson KR og Hörður Axel Vilhjálmsson Keflavík eru lykilmenn í sínum liðum. mbl.is//Hari

Jón Arnór Stefánsson, fyrirliði KR, var mjög ánægður með spilamennsku liðsins gegn Keflavík í kvöld í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar. KR er nú 2:0 yfir og einum sigri frá undanúrslitunum. Jón Arnór segir augljóst að leikgleðin hafi ekki verið mikil í deildakeppninni hjá sigursælum leikmönnum KR. 

„Ég var mjög ánægður með liðið í heild sinni. Við vorum geysilega einbeittir í síðasta leik og mér fannst við slípa okkar leik enn betur. Við fórum vel yfir hvað Keflvíkingar myndu reyna að gera til að koma á óvart í kvöld og vorum tilbúnir í slaginn. Við vorum beittir og þegar við erum í svona góðum gír þá er erfitt að spila svæðisvörn á móti okkur. Einnig hjálpar það heilmikið þegar vörnin er einnig til staðar hjá okkur. Mér fannst liðsheildin ofboðslega góð í kvöld og hún skilaði miklu. Menn voru á tánum í vörninni og hjálpuðu hver öðrum. Það er bara gríðarlega mikilvægt,“ sagði Jón þegar mbl.is spjallaði við hann í Frostaskjólinu í kvöld. 

Er KR-liðið ekki að nálgast það að sýna sínar bestu hliðar? „Við erum allir heilir og höfum verið það í smá tíma. Þetta er ný keppni og nokkrir þættir spila inn í. KR hefur unnið marga titla á síðustu árum og það er augljóst að skortur á leikgleði var til staðar í deildakeppninni. Ég held að það sé ein skýringin á spilamennsku okkar í deildakeppninni í vetur og í deildakeppninni í fyrra. Liðið var upp og niður og meiðslin bætast ofan á. En með nýrri keppni (úrslitakeppninni) þá erum við að sýna okkar sparihliðar og okkur finnst gaman að vera hérna núna. Það er helsti munurinn,“ sagði Jón hreinskilnislega. 

Slapp nokkuð vel eftir þungt högg

Mbl.is hefur heimildir fyrir því að höggið sem Jón fékk á vinstri öxlina í sínum síðasta landsleik hafi verið þyngra en margir gera sér grein fyrir. Höggið hitti beint á öxlina sjálfa og mun Jón hafa verið „heppinn“ að fara ekki úr axlarlið. Líklega bjargaði honum að vera vel þjálfaður og vöðvarnir héldu betur við en þeir myndu gera hjá hinum almenna borgara. Þegar blaðamaður færir þetta í tal fer Jón Arnór að hlæja og spyr hvort nú eigi að blása eitthvað upp. En svarar spurningunni þrátt fyrir það og segist ágætlega á sig kominn. 

„Já þetta var ansi mikið högg en ég er að ná mér. Svona meiðslum finnur maður alltaf fyrir en þetta háir mér ekki þannig séð. Auðvitað háði það mér að þurfa að taka mér hvíld frá æfingum og keppni. Ég var orðinn nokkuð súr í síðasta leik en í kvöld var ég bara ferskur. Faldi mig svolítið í sókninni en gat spilað vörnina á fullu og fengið hvíld á bekknum. Ég gat verið bara hluti af liðinu og það er fínt,“ sagði Jón Arnór Stefánsson. 

Jón Arnór Stefánsson liggur kvalinn á vellinum eftir höggið í …
Jón Arnór Stefánsson liggur kvalinn á vellinum eftir höggið í landsleiknum gegn Portúgal og Kristófer Acox hugar að honum. mbl.is//Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert