Eiga ekki að hugsa lengra en einn leik

Sverrir Þór Sverrisson
Sverrir Þór Sverrisson mbl.is/Hari

„Það er aldrei óskastaða að lenda 2:0 undir. En við þurfum núna að einbeita okkur að því að vinna einn leik,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur í samtali við mbl.is, að loknum leiknum gegn KR í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld. 

„Við getum ekki hugsað neitt lengra. Við þurfum ekki að hugsa um að vinna þrjá í röð heldur þurfum við að hugsa um að vinna næsta leik. Við þurfum að ná því og taka svo stöðuna. Það komum við til með að gera.“

Sverrir gat ekki teflt Mindaugas Kacinas fram í kvöld vegna bakmeiðsla. Mindaugas skoraði 25 stig í fyrsta leik liðanna og munar því um minna. Hann hefur glímt við bakmeiðsli að undanförnu og að upphitun lokinni kom í ljós hann var ekki leikfær. „Vonandi verður Mindaugas orðinn góður í næsta leik. Ég hef fulla trú á því að okkar menn nái honum í gang. Hann festist í baki í kvöld. Hið sama gerðist tveimur eða þremur dögum fyrir síðasta leik en þá náði hann sér í tæka tíð. Það gerðist eitthvað í upphitun í kvöld og ég breytti byrjunarliðinu. Sjúkraþjálfarinn reyndi að koma honum í gang en Mindaugas var ekki í neinu standi til að koma inn á. Að sjálfsögðu gerði þetta okkur mjög erfitt fyrir. Við börðumst vel og gerðum margt gott en það dugði ekki til. Við lentum í vandræðum undir körfunni varðandi fráköstin og fleira,“ sagði Sverrir Þór ennfremur. 

Mindaugas Kacinas
Mindaugas Kacinas mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert