Flautukarfa og dramatík í Grindavík

Collin Pryor og Ólafur Ólafsson
Collin Pryor og Ólafur Ólafsson mbl.is/Árni Sæberg

Grindavík jafnaði óvænt í 1:1 í einvígi sínu gegn Stjörnunni í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta með 84:82-heimasigri í gærkvöldi.

Grindavík náði mest 20 stiga forskoti í leiknum, en með glæsilegum fjórða leikhluta tókst Stjörnunni að jafna í 82:82, þegar 12 sekúndur voru til leiksloka. Þá tók Ólafur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, til sinna ráða og skoraði sigurkörfuna um leið og leiktíminn rann út. Ólafur gerði það gríðarlega vel, því hann var með Collin Pryor í bakinu. Vörnin hjá Pryor var ekki slök, en Ólafi tókst að koma boltanum yfir hann, í hringinn og ofan í.

Grindavík hafnaði í áttunda sæti í deildarkeppninni og Stjarnan varð deildarmeistari. Flestir bjuggust því við 3:0-sigri Stjörnunnar í einvíginu og hefur Grindavík litlu að tapa. Það sást á leik liðsins í gær og var mun meiri barátta í heimamönnum. Þeir börðust betur um hvert frákast og lögðu meira á sig í vörninni.

Sigtryggur Arnar Björnsson sýndi hvers vegna hann hefur spilað landsleiki, því hann var ákaflega góður þegar leikurinn var hve mest spennandi. Hann skoraði úr öllum sex þriggja stiga skotum sínum og öllum átta skotum sínum fyrir innan teig. Hann klikkaði hins vegar úr þremur vítaskotum. Sigtryggur lék betur heilt yfir með Tindastóli á síðustu leiktíð en hann hefur gert með Grindavík í vetur, en haldi hann uppteknum hætti í úrslitakeppninni á Grindavík möguleika í einvíginu. Jordy Kuiper spilaði einnig virkilega vel og hefur hann orðið sterkari eftir því sem liðið hefur á leiktíðina. Þrátt fyrir að vera með mann eins og Hlyn Bæringsson í vörninni, réðu Stjörnumenn illa við Hollendinginn undir körfunni. Ólafur Ólafsson skoraði mikilvægar körfur og auðvitað mikilvægustu körfu leiksins, en Lewis Clinch getur gert betur. Það er virkilega vel gert hjá Grindavík að vinna gegn jafn sterku liði og Stjarnan er, án þess að Clinch hafi átt sérstaklega góðan leik.

Sjá allt um leikina í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »