Meistarar á beinni braut

Björn Kristjánsson sækir að körfu Keflvíkinga í gærkvöld.
Björn Kristjánsson sækir að körfu Keflvíkinga í gærkvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Íslandsmeistarar síðustu fimm ára í KR virðast vera komnir á beinu brautina í úrslitakeppni Íslandsmótsins. Liðið lék mjög vel í gær gegn Keflavík og sigraði 86:77.

Fyrir vikið er KR með 2:0 forystu í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum og vantar einn sigur til viðbótar til þess að komast í undanúrslitin.

Nú verður forvitnilegt að sjá hvort Keflvíkingar eigi einhverjar kanínur í sínum hatti en næsti leikur verður í Keflavík. Eftir að hafa lent í 4. sæti í Dominos-deildinni, sem sjaldan hefur verið jafn sterk, þá eru Keflvíkingar varla tilbúnir til þess að fara í sumarfrí eftir þrjá leiki í 8 liða úrslitum.

Þeir voru reyndar seinheppnir í gær. Mindaugas Kacinas, sem skoraði 25 stig fyrir Keflavík í fyrsta leik liðanna, var ekki með í gær. Festist hann í bakinu í upphitun og riðlaði það því leikáætlun Keflvíkinga. Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, tjáði Morgunblaðinu að leiknum loknum að honum hefði verið kunnugt um stöðuna á Mindaugas þegar tíu mínútur voru þar til leikurinn átti að hefjast.

Auðvitað skiptir verulegu máli að Kacinas verði leikfær í næsta leik til að Keflavík eigi möguleika. Nú þegar hafa orðið skakkaföll hjá liðinu þar sem Guðmundur Jónsson er nýbyrjaður að æfa eftir að hafa verið meiddur síðan fyrir áramót. Miðað við liðsbraginn sem var á KR í gær þá þurfa lykilmenn Keflavíkur að eiga stórleik í næstu leikjum til að eiga möguleika á að fara áfram.

Sjá allt um leikina í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert