Margt sem vantaði upp á

Gunnar Ólafsson, leikmaður Keflavíkur, var daufur eftir tap Keflvíkinga í kvöld gegn KR, 85:64. Þar hefur hann lokið leik þetta árið því KR vann einvígi liðanna í átta liða úrslitum um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik 3:0.

Gunnar sagði mikið hafa vantað upp á hjá Keflavík þetta kvöldið og viðurkenndi fúslega að Keflavík hafi tapað gegn betra liði. Gunnar var ekki viss hvort Keflvíkingar hafi verið líklegri til afreka í rimmunni þrátt fyrir að vera með heimavöllinn. Gunnar benti í því samhengi á þá augljósu staðreynd að KR-ingar eru fimmfaldir Íslandsmeistarar og liðið hokið reynslu. 

Gunnar sagðist ekki vita um framhald sitt í Keflavíkurliðinu en hugur hans leiti út fyrir landsteinana í atvinnumennsku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert