Illa gefinn einstaklingur grýtti klinki inn á

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur.
Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jóhann Þór Ólafsson stýrði Grindavík í síðasta skipti í kvöld er liðið tapaði fyrir Stjörnunni, 83:76, í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta. Stjarnan vann einvígið 3:1 og er komin í undanúrslit, en Jóhann gaf það út fyrr í vetur að hann myndi hætta þjálfun Grindavíkur eftir leiktíðina. Þrátt fyrir tapið var Jóhann að mörgu leyti ánægður með sína menn.

„Við vorum flottir fyrir utan smá kafla í upphafi seinni hálfleiks. Þetta var flott frammistaða en við erum bara að spila við feikigott lið. Þeir settu stór skot þegar það þurfti á meðan þetta var stöngin út hjá okkur. Ég er stoltur af mínu liði og okkar frammistöðu. Við gáfum Stjörnunni fjóra hörkuleiki og annað liðið þurfti að tapa og því miður kom það í okkar hlut."

Mikil reikistefna átti sér stað í lok leiksins, en einn stuðningsmaður Grindavíkur kastaði mynt í Antti Kanervo í liði Stjörnunnar.

„Ég sá ekki hvað gerðist en mér skilst að einhver illa gefinn einstaklingur grýtti klinki inn á völlinn," sagði Jóhann. Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, fór í kjölfarið inn á völlinn, ekki í fyrsta skipti á leiktíðinni. „Hann má það víst, það eru fastir liðir eins og venjulega," sagði Jóhann brosandi. 

Jóhann ætlar að taka sér frí frá körfubolta í einhvern tíma, en ætlar sér að halda áfram að þjálfa. „Nú tekur við pása en ég er ekkert hættur að þjálfa. Ég veit ekki hvað er í gangi annars staðar. Það er ekkert spennandi í gangi akkúrat núna. Ég ætla ekki að hugsa um körfubolta næstu 4-6 vikurnar," sagði Jóhann Þór Ólafsson

mbl.is