Keflavík hélt lífi í einvíginu

Birna Valgerður Benónýsdóttir, Keflavík, með sendingu fram hjá Jóhönnu Björk …
Birna Valgerður Benónýsdóttir, Keflavík, með sendingu fram hjá Jóhönnu Björk Sveinsdóttur í liði Stjörnunnar í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Keflavík og Stjarnan mættust í þriðja leik liðanna í undanúrslitum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfuknattleik í kvöld. Stjarnan hefði með sigri getað tryggt farseðil sinn í úrslitaeinvígið og því Keflavík með bakið upp við vegginn fræga og mátti ekki tapa. Svo fór að Keflavík tryggði áframhaldandi göngu sína í keppninni með fræknum sigri, 91:67.

Næsti leikur liðanna er í Garðabæ á pálmasunnudag. Stigahæst hjá Keflavík þetta kvöldið var Brittney Dinkins með 36 stig og spilaði frábærlega. Hjá Stjörnunni var Dani Rodriquez best með 20 stig. 

Stjarnan mætti með laskað lið til leiks þetta kvöldið þar sem bæði vantaði Bríet Hinriksdóttur og Auði Ólafsdóttur og voru þær báðar meiddar eftir síðustu viðureign liðanna. Þetta gerði það að verkum að rótering í liðinu varð minni og að sama skapi gat þjálfari Keflavíkur spilað hraðan leik og skipt örar inn á í því skyni að þreyta lið Stjörnunnar fyrr. 

Fyrri hálfleikur varð að hálfgerðu jójói því Keflavík byrjaði leikinn töluvert betur en missti svo dampinn, en kom svo til baka í öðrum leikhluta og leiddi í hálfleik með 16 stigum í stöðunni 52:36. Það var 15 stiga áhlaup Keflavíkur sem var ósvarað af Stjörnunni sem lagði grunn að þessum mun.

Keflavík var yfir höfuð sterkari aðilinn í leiknum í heild sinni en kannski smá áhyggjuefni því liðið á til að detta í kæruleysi í sínum leik þegar vel gengur.  Jón Guðmundsson þjálfari liðsins tók undir þetta eftir leik en sagðist sáttur yfir heildina með sigur og bætti við að hann ætlaði sínu liði annan leik í Keflavík í þessari seríu. 

Það hrjáði vissulega Stjörnuna að tvo lykilleikmenn vantaði en ofan í það voru þær að hitta illa og Dani Rodriguez þeirra hjarta hefði í raun þurft að eiga algeran súper leik svo þær myndu ná sigri þetta kvöldið. Það gekk ekki eftir. 

Keflavík 91:67 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert