Að drepa eða vera drepinn

Emil Karel Einarsson
Emil Karel Einarsson mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Emil Karel Einarsson kom sterkur af bekknum í liði Þórs Þorlákshafnar gegn KR í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld. Það dugði hins vegar ekki til því KR vann 98:89-sigur og er nú með 2:1-forskot í einvíginu. 

„Þeir voru graðari en við í þessu. Þeir voru að ná sóknarfráköstunum og voru fljótari í öllum aðgerðum. Við vorum alltaf eftir á og þegar við náðum áhlaupum náðum við aldrei að komast yfir. Það er erfitt að elta alltaf. Við þurfum að koma graðari inn í næsta leik og ná þessum helvítis fráköstum," sagði svekktur Emil í samtali við mbl.is eftir leik. 

Kinu Rochford skoraði 14 stig í leiknum, en hann hefur skorað töluvert meira í síðustu leikjum gegn KR. „Við þurfum að vera duglegri að senda á hann og svo hitta úr skotunum þegar hann sendir á okkur. Við verðum að nýta betur tækifærin sem gefast."

KR fer áfram í úrslit á kostnað Þórs með sigri í Þorlákshöfn mánudaginn. Emil hefur lítinn áhuga á að fara í sumarfrí. 

„Við ætlum að selja okkur dýrt. Það er að drepa eða vera drepinn. Við ætlum að koma dýrvitlausir í næsta leik og við ætlum okkur að vinna þetta," sagði Emil Karel. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert