Breiddin gæti skilað sigri

Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, fer yfir málin með sínu liði ...
Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, fer yfir málin með sínu liði í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Eggert

„Frábært að ná að jafna einvígið og knýja fram oddaleik á okkar heimavelli í Keflavík,“ sagði Jón Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við mbl.is eftir 83:73-sigur liðsins gegn Stjörnunni í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts kvenna í körfuknattleik í Garðabænum í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 2:2 og þurfa liðin því að mætast í hreinum úrslitaleik í Keflavík 17. apríl.

„Við höfum lagt áherslu á fráköstin og að passa boltann betur á síðustu æfingum en fráköstin voru samt sem áður ekki að hjálpa okkur í dag. Stjarnan var með tólf sóknarfráköst í fyrri hálfleik í kvöld en Brittanny Dinkins var gríðarlega öflug í kvöld og hjálpaði okkur mikið þegar við þurfum á því að halda. Það sem skóp þennan sigur samt sem áður var varnarleikurinn sem var mjög góður, heilt yfir, í kvöld.“

Keflavíkurliðinu tókst að halda aftur af stjörnuleikmanni Garðbæinga, Danielle Rodriguez, framan af leik og þá komu leikmenn inn af bekknum í kvöld sem settu niður körfur á mikilvægum augnablikum.

„Við fengum framlag frá mörgum leikmönnum í bæði vörn og sókn. Emilía spilaði frábæra vörn á Danielle og hægði vel á henni. Erna, Katla og Írena komu allar inn á og dekkuðu hana mjög vel, þrátt fyrir að hún hafi skorað 37 stig. Sóknarlega þá voru leikmenn sem komu inn af bekknum að standa sig mjög vel og þeir skoruðu körfur fyrir okkur á mjög mikilvægum augnablikum í leiknum.“

Jón hefur verið duglegur að hreyfa við liðinu í undanförnum leikjum og vonar að það sé enn þá næg orka á tankinum hjá liðinu fyrir lokaleikinn.

„Við erum með frábæra breidd og vonandi mun það hjálpa okkur í oddaleiknum. Ég hreyfi mikið við liðinu og ég trúi því að við séum nægilega orkumiklar fyrir leikinn á miðvikudaginn til þess að klára hann,“ sagði Jón Guðmundsson í samtali við mbl.is.

mbl.is