Núna eru markmiðin öðruvísi

Guðbjörg Sverrisdóttir í baráttunni gegn KR.
Guðbjörg Sverrisdóttir í baráttunni gegn KR. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

„Það var fínt að þetta var spennandi fyrir áhorfendur," sagði Guðbjörg Sverrisdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir 84:81-sigur á KR í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í kvöld. Valur tryggði sér sæti í úrslitum með 3:1-sigri í einvíginu. 

„Við höfðum alltaf trú á verkefninu og það var gott að klára þetta í dag. Það er alltaf hægt að finna litla hluti til að bæta en mér finnst spilamennskan heilt yfir nokkuð góð. Heather og Helena voru frábærar og við hentum okkur á alla bolta. Við vorum allar tilbúnar og við ætluðum að klára þessa seríu og við gerðum það,“ bætti Guðbjörg við.

Einvígi KR og Vals var jafnara en flestir áttu von á, þar sem allt gekk á afturfótunum hjá KR undir lok deildarkeppninnar á meðan Valskonur voru búnar að vinna hvern einasta leik síðan í lok nóvember. 

„Úrslitakeppnin er náttúrulega allt annað dæmi en deildarkeppnin og þær eru með flotta leikmenn. Þegar þeir eru að skila sínu og við erum ekki að eiga toppleik þá geta þær verið erfiðar. Þær voru betri en við í seinasta leik en við náðum að sýna að við erum heilt yfir betri.“

Finnur Freyr Stefánsson stýrði Val í leiknum þar sem Darri Freyr Atlason tók út leikbann. „Hann er búinn að vera svolítið inni í þessu með okkur. Hann og Darri eru báðir úr KR og eru með svipaða hugmyndafræði. Ég fékk svo að spila mikið meira núna, það var gaman.“

Valur tapaði fyrir Haukum í úrslitaeinvíginu á síðasta ári og segir Guðbjörg að tilfinningin sé öðruvísi í ár, en á sama tíma fyrir ári. 

„Það voru ekki gerðar neinar væntingar til okkar á síðasta ári. Við ætluðum okkur bara í úrslitakeppnina, sem tókst. Núna voru markmiðin öðruvísi og að komast í úrslitin sjálf. Það var ömurlegt að tapa í oddaleik í fyrra og núna vilja allir leiðrétta það og vinna oddaleik þetta árið,“ sagði Guðbjörg Sverrisdóttir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert