Borche tuðar og er með samsæriskenningar

Arnar Guðjónsson er orðinn þreyttur á ummælum Borche Ilevski.
Arnar Guðjónsson er orðinn þreyttur á ummælum Borche Ilevski. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svona hefur þessi sería verið, þetta hefur verið boxbardagi. Við vorum áræðnari í dag en við höfum verið,“ sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir góðan 90:75-sigur á ÍR í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í kvöld. 

Borche Ilevski, þjálfari ÍR, var allt annað en sáttur við dómarana í leiknum og vandaði þeim ekki kveðjurnar í viðtali við mbl.is eftir leik. Arnar er orðinn þreyttur á dómaraumræðum Ilevski.  

„Það kemur mér ekkert á óvart. Hann er búinn að tuða yfir dómurum og koma með samsæriskenningar um dómgæslu í vetur. Hann tuðar eftir alla leiki en málið er það að ÍR-ingar brjóta mikið og það á að dæma þegar það eru villur. 

Það er rosalega erfitt að vera körfuboltadómari því þú vilt hafa eitthvert flæði í leiknum. Það þarf hins vegar að dæma þegar brot eiga sér stað. Við vorum áræðnari og það ýtti dómurunum í það að dæma meira. Í leik tvö og þrjú fórum við frá því þegar fyrsta snertingin kom og þá flautuðu þeir ekki,“ sagði Arnar, en hann var ekki hættur. 

„Ég tjái mig ekki um dómgæslu og hef ekki gert í vetur en ég er kominn með nóg af því að menn séu alltaf að tuða í fjölmiðlum út í hið óendanlega. Það er óvirðing fyrir menn sem eru að gera sitt besta í þessu starfi,“ sagði Arnar. 

Hann skaut svo á leikmann ÍR og sagði að Ilevski ætti frekar að einbeita sér að því að tala við hann. Arnar nafngreindi ekki leikmanninn, en ætla má að hann hafi verið að tala um Kevin Capers, sem lét illa við dómara stóran hluta leiks. 

„Hann ætti kannski frekar að tala við sinn mann sem tuðar öllum stundum yfir dómgæslu. Hann fær viðvörun eftir viðvörun fyrir að vera með tuð og leiðindi. Hann ætti að einbeita sér frekar að því,“ sagði Arnar áður en hann bætti við að það væru 50% möguleikar hjá Stjörnunni í oddaleiknum. 

mbl.is